Myndlistaskólinn í Reykjavík

Myndlistaskólinn í Reykjavík er til húsa í JL-húsinu, Hringbraut 121, 101 Reykjavík.

Aðalnetfang skólans er mir@mir.is og símanúmer er 551 1990. Síminn er opinn kl. 13-17 mánudaga-fimmtudaga.

Skrifstofan er opin 9-17 mánudaga-fimmtudaga. 9-12 á föstudögum.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Grunnur að starfi Myndlistaskólans í Reykjavík var lagður vorið 1946 þegar Félag íslenskra frístundamálara var stofnað en tilgangurinn var að skapa vettvang þar sem almenningur ætti kost á kennslu í myndlist.

Kennsla hófst síðla árs 1947 og strax árið 1948 voru barnanámskeið skólans orðin eftirsótt, auk þess sem boðið var upp á kennslu í teikningu, litameðferð, skúlptúr og keramiki fyrir fullorðna. Sjálfseignarstofnun um rekstur skólans var sett á laggirnar árið 1950.

Skólinn starfar eftir samþykktri skipulagsskrá og er fjármagnaður með samstarfssamningum við ríki og sveitarfélög auk styrkja og skólagjalda.

Mörg þúsund manns á öllum aldri hafa notið leiðsagnar hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík frá stofnun hans. Auk þess hefur starfsemi skólans gefið starfandi listamönnum kost á launaðri vinnu á sínu sérsviði.

Lengst af bauð skólinn eingöngu upp á stök námskeið fyrir börn og fullorðna nemendur. Nemendafjöldi tók gjarnan mið af því rými sem skólinn hafði til afnota og t.d. varð gríðarleg fjölgun þegar flutt var úr Ásmundarsal upp á Hlemm.

Með upptöku áfangakerfis innan framhaldsskólans opnaðist möguleiki fyrir nemendur annarra skóla að fá nám við Myndlistaskólann metið sem valgrein í sínu námi.

Þegar Myndlista- og handíðaskóli Íslands var lagður niður og Listaháskóli Íslands stofnaður skapaðist þörf fyrir markvisst undirbúningsnám fyrir háskólanám í myndlist og hönnun. Myndlistaskólinn stofnaði þá fornámsdeild og í fyrsta sinn árið 2001 var boðið upp á samfellt nám við skólann.

Í dag eru alls sjö námsleiðir í boði í dagskóla en jafnframt er boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn, unglinga og fullorðna nemendur.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarbækling skólans.