Myndlistaskólinn í Reykjavík

Myndlistaskólinn í Reykjavík er til húsa í JL-húsinu, Hringbraut 121, 101 Reykjavík.

Aðalnetfang skólans er mir@mir.is og símanúmer er 551 1990.

Skrifstofa skólans er opin á virkum dögum frá 13:00 - 17:00 (á föstudögum til kl. 16:00).

Nánari upplýsingar má finna hér.

Mörg þúsund manns á öllum aldri hafa notið leiðsagnar hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík undanfarin sjötíu og fimm ár. Í dag bjóðum við bæði upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn og fullorðna í vikulegum tímum og fullt nám í dagskóla. Á listnámsbraut er bæði boðið upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs og eins árs fornám fyrir þá sem hyggja á nám við listaháskóla. Einnig er í dagskóla hægt að sækja tveggja ára áfanganám í keramiki, málaralist, teikningu og textíl.

Grunnur að starfi Myndlistaskólans í Reykjavík var lagður vorið 1946 þegar Félag íslenskra frístundamálara var stofnað en tilgangurinn var að félagsmenn gætu sótt sér tilsögn í myndlist. Kennsla hófst síðla árs 1947 og strax árið 1948 voru barnanámskeið skólans orðin eftirsótt, auk þess sem boðið var upp á kennslu í teikningu, litameðferð, skúlptúr og keramiki fyrir fullorðna.

Sjálfseignarstofnun um rekstur skólans var sett á laggirnar árið 1950. Skólinn starfar eftir samþykktri skipulagsskrá og er fjármagnaður með samstarfssamningum við ríki og sveitarfélög auk styrkja og skólagjalda.