Forvarnaáætlun

Forvarnir eru vítt hugtak sem tekur til margra þátta daglegs lífs, m.a. forvarna gegn neyslu á vímuefnum og einelti. Áhersla er lögð á að efla félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska nemenda. Hluti fræðslunnar fer fram í tengslum við verklega og fræðilega kennslu en auk þess kallar skólinn til ýmsa þá er bjóða fræðslu við hæfi. Deildarstjórar og námsráðgjafi vinna að forvarnarstarfi innan skólans. Markmið fræðslunnar er:

  • að auka vellíðan nemenda;
  • að styrkja sjálfsmynd og sjálfstæði nemenda;
  • að efla alhliða þroska nemenda og ábyrgð þeirra á eigin lífi;
  • að nemendur átti sig á hvaða grunnfærni er mikilvæg til að ná velgengni í lífinu;
  • að nemendur geti aðlagast mismunandi aðstæðum og mætt þeim á jákvæðan hátt;
  • að bæta samskipti og takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs.

Myndlistaskólinn er vímuefnalaus skóli. Til að ná því markmiði hefur skólinn sett sér stefnu um samstarf heimilis og skóla og fræðslu og ráðgjöf fyrir kennara og starfsfólk. Öll neysla áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum. Það sama gildir um allar ferðir og skemmtanir sem skipulagðar eru á vegum skólans. Skólinn samþykkir ekki vímuefnaneyslu nemenda.