Skólanámskrá

Skv. 22. gr. laga um framhaldsskóla nr 92/2008 gefur Myndlistaskólinn í Reykjavík út skólanámskrá en hún er unnin af skólameistara, í nánu samráði við náms- og starfsráðgjafa, yfirkennara, deildarstjóra og aðra starfsmenn skólans og eftir atvikum nemendur skólans.

Skólanámskráin er í stöðugri mótun. Almennur hluti hennar er birtur á vefsíðu skólans og gerir grein fyrir starfsemi, stjórnskipan, sýn, stefnu, áætlunum og markmiðum skólans, lýsir skólabrag, umgjörð og skipulagi og tiltekur stuðning, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindi og skyldur nemenda, samstarf við foreldra og utanaðkomandi aðila, sjálfsmat og gæðamál sem og fjölbreytt námsframboð. Á vefsíðu skólans eru jafnframt hlekkir sem tengjast námsbrauta- og áfangalýsingum skólans á framhaldsskólastigi sem vistaðar eru á vefnum namskra.is.

Skólanámskráin nær til allra brauta skólans á framhaldsskólastigi en þær eru listnámsbraut með námslok á 3. hæfniþrepi og keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut með námslok á 4. hæfniþrepi. Áfangar á framhaldsskólastigi eru þrepasettir samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 og í samræmi við hana metnir til framhaldsskólaeininga. Skólanámskráin greinir jafnframt frá fyrirkomulagi í kennslu árs náms til undirbúnings fyrir nám á háskólastigi ætlað nemendum sem lokið hafa stúdentsprófi og árs náms fyrir nemendur sem lokið hafa starfsbraut framhaldsskólans. Ennfremur um kennslu almennra námskeiða og starfsemi barna- og unglingadeildar.

Námskráin byggir á fyrri námskrá en menntamálaráðuneytið staðfesti fyrstu námskrá skólans árið 2001. Á grunni hennar var skólanum veitt formlegt leyfi til að starfa sem einkaskóli á framhaldsskólastigi í desember 2003. Núverandi viðurkenning til einkaskóla á framhaldsskólastigi með námslok á 3. og 4. þrepi gildir til 24. febrúar 2024. Haustið 2015 var brautarlýsing fyrir listnámsbraut staðfest af menntamálaráðherra. Listmálarabraut hlaut staðfestingu árið 2016 og keramik-, teikni- og textílbraut síðla árs 2017.