Innritun á stök námskeið fer fram í gegnum skráningarforrit á heimasíðu, gegnum síma eða á skrifstofu.
Námskeið barna- og unglingadeildar eru ætluð nemendum á aldrinum 4-16 ára.
Samkvæmt skólasamningi Myndlistaskólans og menntamálaráðuneytisins skulu þeir hafa forgang í myndlistanám fyrir almenning sem lokið hafa grunnskólanámi. Forgang í inntökupróf fyrir undirbúningsnám eiga þeir sem eru yngri en 22 ára og hafa lokið stúdentsprófi. Forgang í inntökupróf fyrir nám til stúdentsprófs eiga framhaldsskólanemendur sem hafa lokið a.m.k. 60 framhaldsskólaeiningum í framhaldsskólanámi.
Umsóknarfrestur um nám í dagskóla er auglýstur að vori og um miðja haustönn ef teknir eru inn nýir nemendur á vorönn. Umsóknir eru rafrænar og ber að skila á tilteknum tíma. Með umsóknum þurfa að fylgja staðfestingar um fyrra nám.
Sérstakar inntökunefndir velja nýja nemendur úr hópi umsækjenda um nám í dagskóla. Ýmist eru umsækjendur látnir þreyta inntökupróf eða senda inn möppu með myndum af fyrri verkum. Umsækjendur geta jafnframt verið kallaðir í viðtal við inntökunefnd.