Námsframvinda í samfelldu námi

Falli nemandi í áfanga þarf hann að endurtaka áfangann. Sé þess kostur endurtekur nemandinn áfangann strax. Þá er annað hvort farið fram á að nemandinn vinni aftur þau verkefni sem ekki stóðust lágmarkskröfur í fyrra skiptið eða vinni sérstakt verkefni eða þreyti próf til að hægt sé að kanna hæfni hans á viðkomandi sviði. Nemandi sem fellur á mætingu þarf að vinna aukaverkefni til að standast kröfur um vinnuframlag. Þessum verkefnum skal skilað innan þriggja vikna frá lokum áfanga. Þegar áfangi er endurtekinn með þessum hætti getur nemandinn eingöngu fengið einkunnina 5 sem þýðir að hann hafi staðist áfangann. Skólinn innheimtir sérstakt gjald fyrir slíka endurtökuáfanga og miðast gjaldið við fjölda eininga. Einungis er hægt að taka 25% af námi annar upp með þessum hætti.

Ef nemandi sem fellur í áfanga tekur ekki eða nær ekki endurtökuáfanga þarf hann annað hvort að taka samsvarandi áfanga í námskeiðaskóla, fjarnámi við annan skóla eða endurtaka áfangann að ári. Nemandi sem lýkur minna en 75% af einingum annar getur ekki haldið áfram námi á næstu önn. Nemandanum er þá heimilt að óska eftir að fá að taka upp þráðinn að ári liðnu en sú beiðni þarf að berast tímanlega vegna inntöku nýrra nemenda. Nemandi sem þarf að endurtaka önn vegna slæms árangurs þarf ekki að endurtaka áfanga þar sem einkunn var 7 eða hærri. Ekki er hægt að endurtaka önn oftar en einu sinni.

Þegar nemandi lýkur námi við skólann má vegið meðaltal einkunna ekki vera lægra en 5,0 og lokaeinkunn hvers áfanga skal vera 5,0 eða hærra. Nemanda er þó heimilt að hafa einkunina 4 í tveimur áföngum á prófskírteini sínu en einungis þegar um að ræða lokaáfanga í grein.

Ef nemandi er ósáttur við einkunn getur hann leitað til yfirkennara og skal umkvörtun vera rökstudd og sett fram eigi síðar en 3 dögum eftir að einkunn er birt.

Námsráðgjafi finnur leiðir sem henta við úrlausn verkefna fyrir nemendur sem eiga við tiltekna námsörðugleika að stríða.