Námsmat

Námsmat tekur mið af þeim námsmarkmiðum sem sett eru fram í áfangalýsingu. Nemendur fá kennslulýsingu við upphaf áfanga. Í henni er því lýst með hvaða hætti námsmarkmiðum verði náð, hvernig námsmat verði framkvæmt, hvenær nemendum beri að skila einstökum verkefnum og hvaða efni og áhöld verði notuð við nám og vettvangsferðir. Símat á vinnu nemanda í áfanganum er lykilatriði. Verkefni hvers áfanga eru fjölbreytt og námsmat þar af leiðandi líka.

Í verklegum áföngum skila nemendur oft lokaverkefni sem þeir fylgja úr hlaði í yfirferð. Í yfirferð ræða nemendur og kennarar um eiginleika verksins, styrk þess og veikleika. Við áfangalok leggur kennari formlegt mat á heildarframmistöðu nemenda og fá nemendur niðurstöður afhentar eigi síðar en tveimur vikum eftir að áfanga lýkur. Námsmat í verklegum áföngum tekur í senn til hugmyndavinnu og verkferils, hæfni nemenda í viðkomandi grein og getu þeirra til að tjá sig og fjalla um viðfangsefnið skriflega, munnlega eða með öðrum hætti.

Í bóklegum áföngum vinna nemendur fjölbreytt verkefni s.s. dagbækur, ritgerðir, próf, myndrænar, skriflegar og munnlegar greinargerðir, gjörninga og myndverk. Einkunnir eru gefnar í heilum tölum og við lok flestra áfanga fá nemendur jafnframt leiðbeinandi umsögn þar sem fram kemur hvar styrkur hvers og eins liggur og hvernig viðkomandi getur bætt sig að mati kennara. Í einstaka stuttum áföngum er þó einungis gefin tala. Til að standast áfanga má einkunn ekki vera lægri en 5 sem þýðir að nemandi hafi náð að minnsta kosti 45% af námsmarkmiðum og ástundun hafi ekki farið niður fyrir 80%. Einkunnagjöf í námskeiðaskóla einskorðast við einkunnagjöf í heilum tölum og er einkunn því aðeins gefin að nemandi hafi staðist kröfur um 80% mætingu.