Meðferð ágreiningsmála

Nemendur geta leitað til yfirkennara og námsráðgjafa með sín mál. Ef um alvarleg ágreiningsmál er að ræða skal skólameistara gert viðvart. Skólameistari gætir meðalhófs og hefur að leiðarljósi að viðkomandi nemandi fái frest til að andmæla því sem að honum snýr þegar menn greinir á.

Ef nemandi telur á sér brotið af kennara getur hann leitað til yfirkennara. Ef nemandi telur á sér brotið af yfirkennara skal hann leita til skólastjóra.

Nemendur fá viðvörun þegar þeir nálgast lágmark í mætingu, brjóta skólareglu eða sinna ekki náminu. Nemendur fá tækifæri til úrbóta og er þá alla jafna gerður samningur þar sem úrbætur eru tilgreindar og afleiðingar þess að þær nái ekki fram að ganga. Yfirkennari og nemandi koma að samningi þessum. Brjóti nemandi ítrekað skólareglur eða hafi rangt við í verkefnavinnu er honum vísað úr skóla. Nemandi fær andmælarétt og ef þurfa þykir er málinu vísað til skólaráðs.

Kennari skal snúa sér til yfirkennara ef hann getur ekki leyst úr málum í samskiptum við nemendur eða aðra kennara.

Kennari getur snúið sér til skólameistara vegna samskipta við yfirkennara. Hafi kennari umkvörtunarefni varðandi stjórnun skólans skal hann leita til formanns stjórnar/skólanefndar.

Kvörtunum um búnað og tæki skal beint til umsjónarmanns.

Stefnt skal að því að leysa úr ágreiningsmálum eins fljótt og auðið er.

Bent er á að skv. stjórnsýslulögum er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.