Umhverfisstefna

Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur sett sér umhverfisstefnu. Markmiðið er að lágmarka vistsporið sem starfsemi skólans veldur og vekja nemendur, kennara og starfsfólk til umhugsunar um þau áhrif sem maðurinn hefur á náttúruna – jafnt umhverfi sem annað fólk. Stjórnendur skólans hafa einsett sér að flétta sjónarmið umhverfisverndar inn í sérhverja ákvörðun sem tekin er. Skólinn er lítill og viðfangsefni hans á nokkuð afmörkuðu sviði þannig að heiminum verður ekki bjargað en hugsunin að baki er einföld og sú hugsun sem allsstaðar ætti að liggja til grundvallar: Við gerum hvað við getum.

Skólinn hefur tekið fjölmörg spor í rétta átt. Sorpflokkunarstöðvar eru aðgengilegar um allan skóla þar sem plast, pappír og umbúðir með skilagjaldi er flokkað frá og í matstofum eru ennfremur ílát fyrir lífrænan úrgang, málma og gler og postulín. Í námi við skólann nota nemendur efni sem umgangast þarf með gát en þess er vandlega gætt að efnaúrgangi frá verkstæðum skólans sé fargað með viðeigandi hætti. Nemendur eru ávallt hvattir til að nýta hráefni vel og endurnýta eins og unnt er.

Umhverfisstefna skólans birtist í námsframboði skólans en áhersla hefur verið á að bjóða nám í greinum sem að öðrum kosti þyrfti að sækja nám í til útlanda. Með sérhæfðum listnámsbrautum er markmiðið að undirbúa nemendur undir starf á sviðum þar sem mengun er óhjákvæmilegur fylgifiskur, s.s. í málaralist, keramiki og textíl en textíliðnaðurinn er meðal mestu mengunarvöldum í heiminum. Hluti af menguninni verður til vegna þess að hráefni og vara eru flutt fram og aftur um heiminn. Með kennslu í viðkomandi greinum er stuðlað að uppbyggingu starfsgreina sem standa veikum fótum í íslensku samfélagi en ekkert samfélag getur komist af án. Ennfremur er lögð rík áhersla á rannsóknir og tilraunir með íslenskt hráefni og vinnsluaðferðir í textíl og keramiki.

Umhverfisstefna skólans birtist í skólagjöldum en innifalið í þeim er aðeins takmarkað efni sem hvetur nemendur til að velta fyrir sér hversu mikið hann þarf að nota og hvað hann getur endurýtt.

Umhverfisstefnu þarf að taka til endurskoðunar á hverju skólaári en þátttaka nemenda í mótun hennar er mikilvæg, bæði vegna þess að hver nýr nemendahópur getur haft mikið fram að færa en ekki síður til þess að vekja hvern og einn til umhugsunar um þetta brýna málefni.