Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni

Áætlun gegn einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni

Kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Allir nemendur sem og starfsmenn við skólann eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu án þess að þurfa að þola kynbundið ofbeldi af neinu tagi, hvorki kynferðislega áreitni eða kynbundna áreitni. Einelti er ekki liðið innan skólans.

Ef starfsmenn telja sig verða fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegu ofbeldi eða áreitni skulu þeir leita eftir aðstoð innan skólans. Nemendur geta leitað til yfirkennara, skólameistara eða náms- og starfsráðgjafa ef þeir telja sig hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi af einhverju tagi. Leitað verður sátta eftir bestu getu en ef grunur er um alvarlegt brot skal málið sett í lögformlegan farveg. Samkvæmt reglugerð er einelti skilgreint sem endurtekin ámælisverð háttsemi af hálfu eins eða fleiri saman, þ.e. hegðun, athöfn eða athafnaleysi, sem er til þess fallin að meiða, niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna, ógna eða valda vanlíðan hjá þeim sem háttsemin beinist að. Þetta á einnig við um skilaboð eða aðrar upplýsingar sem miðlað er í síma eða með rafrænum hætti. Hér er þó almennt ekki átt við samskipti eða skoðanaskipti milli jafningja.

Ef nemandi eða starfsmaður verður fyrir eða fær vitneskju um einelti eða kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi innan skólans skal viðkomandi tafarlaust upplýsa skólameistara, yfirkennara eða náms- og starfsráðgjafa um það. Viðkomandi þarf að vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til. Skólameistari, yfirkennari eða náms- og starfsráðgjafi bregst við eins fljótt og kostur er. Einu gildir hvort um ræðir einelti eða áreitni í garð nemanda, starfsmanns eða stjórnanda. Ásakanir um einelti eða kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi eru ávallt teknar alvarlega. Svo fljótt sem mögulegt er skal leita eftir frekari upplýsinga um hvort upplýsingar um áreitni eða ofbeldi eigi við rök að styðjast. Ef þörf krefur er leitað utanaðkomandi ráðgjafar. Ávallt er leitast við að hafa sanngirni og óhlutdrægni að leiðarljósi. Gripið er til viðeigandi ráðstafana til að stöðva kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, ofbeldi eða einelti. Rætt er við málsaðila einslega og í þeim tilvikum þar sem nemandi er yngri en 18 ára er einnig rætt við forráðamenn. Allir aðilar máls eiga kost á að ræða við námsráðgjafa. Farsæl lausn málsins byggir á rannsóknarferlinu sjálfu. Þar sem áreitni eða ofbeldi snúast um samskipti er mikilvægt að aðilar málsins komi sjálfir með hugmyndir að lausn vandans sem tekið verður tillit til við úrlausn mála.

Kynning á þessari stefnu skólans fer fram í nemendahópum dagskóla með kynningu náms- og starfsráðgjafa í upphafi skólaárs. Þar er sérstaklega tekið fram að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni sé ekki liðin innan skólans.

Nemendur geta valið að ræða við náms- og starfsráðgjafa um framtíðaráætlanir sínar. Náms- og starfsráðgjafi starfar í þágu nemandans, óháð kyni, og er áhersla lögð á að mæta þörfum hvers og eins.