Nám við barna- og unglingadeild fer fram á námskeiðum og er skipulagt með hliðsjón af markmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Allt annað nám sem fram fer við Myndlistaskólann í Reykjavík tekur mið af aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011 en það er skilgreint á framhaldsskólastigi og er metið til framhaldsskólaeininga þegar það á við.
Nám fyrir nemendur með þorskahömlun er skilgreint með námslok á 1. hæfniþrepi en gera má þó ráð fyrir að nemendur ná mislangt í sínu námi
enda námið mjög einstaklingsmiðað. Námið fer ekki fram skv. staðfestri braut
Námslok á listnámsbraut eru á 3. hæfniþrepi. Samsetning námsins er í samræmi við kröfur aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2011 um nám til stúdentsprófs og tekur brautin mið af því að nemandinn geti lokið stúdentsprófi með þriggja ára námi. Áður en nám við skólann hefst þurfa umsækjendur að hafa lokið að lágmarki 60 einingum við annan framhaldsskóla, í kjarnagreinum og valgreinum, öðrum en þeim sem kenndar eru við skólann. Gert er ráð fyrir að stór hluti þess náms sem nemandinn lýkur við annan skóla sé á 1. og 2. þrepi. Við Myndlistaskólann tekur nemandinn 140 einingar á tveimur árum, 35 á hverri önn. Af þeim 140 einingum sem kenndar eru við skólann eru 25 á 1. þrepi, 52 á 2. þrepi, 57 á 3. þrepi og 6 á 4. þrepi, lokaverkefni nemenda ásamt meðfylgjandi greinargerð.
Eins árs fornám er ætlað nemendum sem lokið hafa stúdentsprófi af annarri braut og samanstendur af völdum verklegum áföngum af listnámsbrautinni, auk listasögu, alls 64 einingum.
Nám á keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut er skilgreint sem viðbótarnám við framhaldsskóla með námslok á 4. hæfniþrepi (sbr. 20. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. 4 hæfniþrep skv. íslenska hæfnirammanum samsvarar 5. hæfniþrepi skv. EQF, Evrópska hæfnirammanum). Þetta nám var upphaflega skipulagt í víðtæku samstarfi, m.a. við marga erlenda listaháskóla og var þá metið til 120 alþjóðlegra ECTS eininga af fjölmörgum háskólum í Evrópu (samsvarar tveggja ára námi á háskólastigi). Að loknu námi við skólann geta nemendur sótt um áframhaldandi nám á háskólastigi við aðra skóla og er viðtökuskóla þá heimilt að meta nám á þessu skólastigi til háskólaeininga eða leggja hæfnipróf fyrir nemendur til að staðsetja þá í námi hjá sér. Fái nemendur inngöngu í einn af samstarfsháskólum Myndlistaskólans erlendis er nám þeirra metið til fulls skv. samningi.
Áfangar námskeiðaskóla fyrir fullorðið fólk taka sömuleiðis mið af aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011 en almenningur hefur kost á að sækja fjölda námskeiða sem samsvara áföngum af staðfestum námsbrautum skólans. Einnig er í námskeiðaskóla boðið upp á fjölda áfanga sem ekki eru kenndir í dagskóla. Námskeið fyrir almenning eru flest skilgreind á 1. og 2. þrepi.