Grunnþættir menntunar

Grunnþættir menntunar sem taldir eru upp í aðalnámskrá framhaldsskóla eru leiðarljós í starfsháttum Myndlistaskólans. Þeir endurspeglast í námsframboði, kennarahópnum og nemendahópnum og sú hugsun sem býr að baki íslenskrar menntastefnu birtist í öllu starfi skólans.

Læsi: Í verklegum áföngum er áhersla lögð á að nemendur þjálfist í að ræða um eigin verk og annarra, rökstyðji skoðanir sínar og hugmyndir, beri eigin verk saman við verk annarra og skilji undirliggjandi samhengi. Með þessu móti er samræða og myndlæsi þjálfað með markvissum hætti. Í öllum áföngum er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér tungutak og orðaforða hvers fags og nýti sér í umræðu. Í bóklegum áföngum er rík áhersla lögð á að hvetja nemendur til að nýta sköpunarkraft tungumálsins. 

Sjálfbærni: Áhersla er lögð á að nemendur læri góða umgengni við öll efni og sjái möguleika í áhugaverðri endurnýtingu. Menningar- og listasaga er fléttuð inn í allt nám skólans en þar eru skoðuð tengsl mannsins við umhverfi sitt í víðu samhengi. Í gegnum nám sitt verða nemendur meðvitaðir um áhrif og möguleika skapandi greina í efnahagslegu tilliti og hvernig skapandi greinar geta framkallað hagvöxt án þess að lífsgæði komandi kynslóða séu skert. Nemendur öðlast skilning á mikilvægi þess að viðhalda og efla menningarlegan fjölbreytileika.

Heilbrigði: Mikilvægur þáttur í listnámi er að nemendur tileinki sér rétt vinnubrögð og líkamsbeitingu. Einnig að nemendur læri að umgangast efni og áhöld á réttan hátt. Nemendur á listnámsbraut sækja vikulega tíma í heilsurækt sem beinist í senn að líkama og sál, eykur einbeitingu og styrkir líkamsvitund. Starfsfólki er sömuleiðis boðið upp á jóga einu sinni í viku. Ennfremur er öllum nemendum og starfsmönnum boðið að taka þátt í vikulegri hugleiðslu undir handleiðslu jógakennara.

Lýðræði og mannréttindi: Mikilvægur þáttur í listnámi er að nemendur þroski afstöðu og persónulega sýn á sjálfa sig og á samfélagið. Jafnframt þurfa nemendur að efla með sér skilning á verkum og sjónarmiðum annarra. Þessi grundvallarþáttur í listnámi eykur samkennd og skilning og byggir nemendur upp til samfélagslegrar ábyrgðar. Nemendur í reglulegu námi fjalla um höfundarétt, sæmdarrétt og önnur lög og reglur tengd listum. 

Jafnrétti: Horft er til þess að kynjajafnvægi ríki í nemendahópum og í kennaraliði. Einnig er þess gætt að námið henti jafnt báðum kynjum og að ekki sé kynjaslagsíða á námsefninu. Skólinn kemur til móts við nemendur með ýmiskonar fötlun, bæði með námi fyrir nemendur með þroskahömlun, námskeiðum fyrir blind og sjónskert börn og námskeiðum fyrir nemendur með líkamlega fötlun. Aldurssamsetning nemendahópa á námskeiðum skólans er breið og rík áhersla er lögð á að gera nemendum sem ekki tala íslensku kleift að stunda nám við skólann.

Sköpun: Sköpun er rauði þráðurinn í öllu starfi skólans. Mikilvægt er að nemendur fá jafnt og þétt að þjálfast í skapandi vinnubrögðum um leið og þeir fá þjálfun í ýmsum aðferðum og tileinka sér ólíkar hugmyndir og þekkingu. Sjálfstæði nemenda vex jafnt og þétt og í samræmi við það eykst vægi viðameiri verkefna þar sem nemandinn fer eigin leiðir.