Sérstaða

Skólinn býður upp á nám á sviði myndlistar, hönnunar og handverks, lista- og menningarsögu í þeim tilgangi að ýta skólinn undir persónulega, listræna tjáningu og stuðla að meðvitund um gildi lista og menningar fyrir samfélagið, manngert umhverfi og náttúru.

Þekking á sjónlistum er hluti af læsi nútímamannsins. Nám í sjónlistum vekur upp og örvar skapandi hugsun og eflir skilning á myndmáli. Myndlæsi verður sífellt mikilvægara eftir því sem umhverfi okkar verður flóknara og fleiri upplýsingar og skilaboð eru sett fram með sjónrænum hætti. Skilningur á listum og myndmáli skerpir eftirtekt einstaklingsins og styrkir hann í að vera gagnrýninn þátttakandi í samfélaginu og virkur listunnandi. Allar manneskjur búa yfir skapandi eiginleikum. Í sköpun liggur kraftur sem er ekki einungis afar þýðingarmikill fyrir einstaklinginn sjálfan heldur einnig samfélagið í heild. Aukin þátttaka fólks í sköpun og menningarstarfi styrkir félagslega innviði samfélagsins og leggur grunn að öflugu og framsæknu atvinnulífi. 

Nám í myndlist opnar nemandanum sýn á listræna sérstöðu sína og sköpunarkraft og dýpkar skilning hans á verkum annarra og þar með lista- og menningarsögu almennt. Skólinn undirbýr nemendur sína fyrir áframhaldandi nám og störf á sviði myndlistar, hönnunar og arkitektúrs en einnig til sérhæfðra starfa við málverk, textílgerð, teiknimyndagerð, myndskreytingar eða við gerð og framleiðslu gripa og nytjahluta úr keramik. Nám við skólann er einnig góð endurmenntun og veitir síðast en ekki síst lífsfyllingu og ánægju.