Kennsluhættir

Nám við skólann, að frátöldu námi barna og unglinga, er metið til framhaldsskólaeininga en á bakvið hverja einingu er 18-24 klst vinnuframlag nemandans. Nám í námskeiðaskóla fer að mestu fram á skólatíma en hluti af námsvinnu nemenda dagskóla fer fram utan formlegs kennslutíma, ýmist sem sjálfstæð vinna nemandans í kennslustofum og á verkstæðum skólans eða sem heimavinna. Heimavinna getur verið bókleg jafnt sem verkleg.

Bókleg kennsla við skólann fer fram í bóknámsstofum eða fyrirlestrastofum. Bóklegir áfangar eru tengdir verklegu námi nemandans þannig að inn í bóknám er fléttað verklegum verkefnum, gjarnan myndrænum verkefnum eða gjörningum. Nám í íslensku, ensku og stærðfræði á listnámsbraut tekur sérstakt mið af myndlist og hönnun og sjónræn miðlun er mikilvægur þáttur í verkefnavinnu nemenda. Því fer hluti af vinnu nemandans í bóklegum áföngum fram utan bóknámsstofu. Bóklegt nám fer fram með fjölbreyttum hætti en rík áhersla er lögð á samtal og samvinnu, lausnaleit og frjóa vinnu nemandans.

Verkleg kennsla fer fram á verkstæðum skólans og í sérhönnuðum kennslustofum. Kennsla fer fram í formi sýnikennslu, fyrirlestra, sameiginlegra yfirferða og einstaklingskennslu. Nemendafjöldi er frá 6 – 32 í hverjum hópi og fer það eftir aldri og innhaldi kennslunnar hversu stórir hóparnir eru. Kennari leggur gjarnan fyrir verkefni í upphafi kennslustundar / skóladags. Því er mikilvægt að nemendur séu stundvísir.

Sýnikennsla: Kennari sýnir nemanda hvernig megi leysa verkefni, hvaða aðferðum hægt er að beita, hvaða efni og áhöld má nota, hvernig eigi að nota verkfæri og áhöld og hvernig eigi að umgangast verkfæri og efni. Þar reynir á nemandann að tileinka sér þekkingu á aðferðum, efni og áhöldum.

Fyrirlestrar: Kennari segir nemendum frá og sýnir mynddæmi úr bókum, kvikmyndum, vefsíðum eða með öðrum hætti. Oft skapast áhugaverð umræða í kringum fyrirlestra. Þar reynir á virka þátttöku nemandans, að hann geti tjáð sig af skilningi með orðaforða sem tengist umfjöllunarefni hverju sinni.

Sameiginlegar yfirferðir: Kennari og nemendur fara sameiginlega yfir útkomu verkefnis. Í yfirferðinni er reynt að meta á uppbyggilegan hátt veikleika og styrkleika úrlausna. Slík yfirferð felur í sér sjálfsskoðun, jafningjamat (aðrir nemendur) og mat kennarans þar sem mismunandi skoðanir manna auka skilning viðstaddra. Mikilvægt er að hlusta vel eftir því sem þar er sagt og nýta til uppbyggingar og þróunar og taka þátt í umræðum með opnum huga og af sanngirni og heiðarleika.

Einstaklingskennsla: Nemandinn nýtur einstaklingsbundinnar kennslu og leiðbeiningar sem getur verið blanda af sýnikennslu og tilsögn. Gott getur verið að hlusta vel á þegar kennari leiðbeinir öðrum nemendum. Oft lærir nemandi jafn mikið af því að hlusta á leiðbeiningar og umræður um verk annarra. Algeng kennsluaðferð til að þjálfa leikni nemenda í ýmsum aðferðum og við beitingu ýmissa verkfæra.

Í dagskóla er fyrst og fremst kennt í samfelldum lotum. Skóladagurinn hefst gjarnan á því að verkefni er lagt inn og síðan er unnið út frá því. Kennsla í bóklegum greinum fer stundum fram í lotum en oftar eru þeir áfangar settir upp þannig að kennt er jafnt og þétt yfir alla önnina.