Stefna

Markmið skólans með því að bjóða börnum jafnt sem fullorðnum nemendum upp á fjölbreytt nám á sviði myndlistar, hönnunar og handverks, lista- og menningarsögu eru að ýta undir persónulega, listræna tjáningu og jafnframt að stuðla að almennri menntun og meðvitund um gildi lista og menningar fyrir samfélagið, manngert umhverfi og náttúru.

Námsbrautum skólans á framhaldsskólastigi er ætlað að undirbúa nemendur undir frekara nám og störf á sviði myndlistar, hönnunar og skapandi greina. Nám á 4. þrepi (viðbótarnám á framhaldsskólastigi) gefur nemendum kost á sérhæfingu í ákveðinni grein en með tveggja ára námi öðlast nemendur yfirgripsmikla fagþekkingu sem felst í þjálfun í að beita aðferðum og tækni, fræðilegri yfirsýn og skilningi á sögulegu samhengi viðkomandi greinar. Myndlistarnámi fyrir nemendur með þroskahömlun er ætlað að gera nemendum kleift að skapa sér starfsvettvang á sviði listsköpunar, á eigin spýtur eða með stuðningi.

Skólinn hefur einsett sér að vera í fararbroddi í myndlistarkennslu á grunn- og framhaldsskólastigi, ekki eingöngu með því að bjóða nemendum á þessum skólastigum upp á gott nám í myndlist og tengdum greinum heldur einnig með því að bjóða kennurum upp á endurmenntun veita þeim aðgang að verkefnum og kennsluefni. Með því að starfrækja sérhæfðar námsbrautir á 4. þrepi leggur skólinn sitt af mörkum að viðhalda dýrmætri þekkingu sem ekki má glatast.

Í öllu starfi Myndlistaskólans í Reykjavík er lögð áhersla á að þroska skapandi hugsun, fagmennsku, hugrekki og sjálfstæði nemenda og efla meðvitund þeirra um ábyrgð sína á eigin námi og framtíð.