Erlent samstarf
Myndlistaskólinn í Reykjavík er í samstarfi við fjölda skóla og stofnana erlendis og verkefnin hafa í gegnum tíðina verið margvísleg og fjölbreytt. Þátttaka í Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins er lykilatriði í þessu samhengi en skólinn hefur einnig notið norrænna styrkja til samstarfsverkefna á þeim vettvangi.
Erlendir gestakennarar heimsækja skólann og kennarar skólans fara sem gestakennarar í samstarfsskóla erlendis. Starfsfólk og kennarar skólans sækja námskeið, ráðstefnur og fundi til útlanda og taka þátt í fjölþjóðlegum rannsóknum í tengslum við kennslu sína hérlendis.
Nemendahópar barna- og unglingadeildar hafa tekið þátt í námskeiðum og hátíðum erlendis og verkefni þeirra hafa verið send til þátttöku í sýningum og samkeppnum. Nemendur dagskóla fara í námsferðir og starfsnám á vegum skólans.
Rík áhersla er lögð á að styrkja tengslin við skóla og stofnanir erlendis, einkum og sér í lagi um samstarf um námsframvindu nemenda sem lokið hafa viðbótarnámi við framhaldsskóla Myndlistaskólans í Reykjavík.