Teikning

Teiknibraut er tveggja ára nám þar sem þú kynnist öllum helstu aðferðum og tækni teiknarans og öðlast fræðilega fagþekkingu. Áhersla er lögð á tæknilega færni, skilning á sögulegu samhengi og sjálfstæði nemandans í hugmyndavinnu og útfærslu.

Teiknibraut á Instagram.

Námslýsing

Nám á brautinni er að stærstum hluta verklegt en fræðilegt nám er u.þ.b. fjórðungur. Til fræðilegra áfanga teljast fagsaga, hönnunarsaga, listasaga og heimspeki auk viðskiptaáfanga og málstofu. Málstofa er vettvangur fyrir margvíslega umræðu þar sem teikningin er skoðuð í stærra sögulegu samhengi og víðara ljósi. Farið er á söfn og sýningar, í heimsóknir á vinnustofur eða fyrirtæki og fyrirlesarar úr atvinnulífinu fengnir í heimsókn.

Einn af áföngum teiknibrautar er námsferð til Evrópu þar sem nemendur kynnast ýmsum náms- og starfsmöguleikum. Ferðirnar eru styrktar af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins.

Verklegir áfangar eru flestir kenndir í samfelldum lotum. Lifandi samræða um verkefni nemenda er ríkur þáttur í öllum verklegum áföngum. Áhersla er lögð á samvinnu og skólinn útvegar nemendum gjarnan raunveruleg verkefni sem byggja á samstarfi við einstaklinga utan skólans, fyrirtæki og stofnanir.

Nám á teiknibraut er 120 einingar. Unnið er með ákveðna grunnþætti á hverri önn um sig; myndheim, myndræna frásögn, hreyfingu og sjálfstæði og samvinnu. Viðfangsefnið er skoðað frá ýmsum sjónarhornum og tilraunir gerðar með nýjar leiðir. Fræðimenn og fagfólk er fengið til að varpa ólíku ljósi á námsefnið.

Nánari upplýsingar um nám á teiknibraut.

Einungis einn hópur við nám á hverjum tíma. Námið skiptist í fjórar annir sem fjalla hver og ein um afmarkað efni eða aðferð. Það skiptir því ekki máli á hvaða önn nemandi hefur sitt nám. Auglýst er eftir umsóknum þegar hægt er að bæta við nemendum.

Námsgjöld skólaárið 2024-25 er 580.000 kr. eða 290.000 kr. önnin. Námið er lánshæft hjá Menntasjóði.

Mat á umsókn

Inntökuskilyrði er stúdentspróf af listnámsbraut eða sambærilegt nám. Auk þess skila umsækjendur inn stafrænar myndir úr skissubókum og möppu með sýnishornum af eigin verkum og eru ennfremur boðaðar í viðtal við inntökunefnd.

SÓTT ER UM Í GEGNUM UMSÓKNARVEF

Fylgja þarf eftirfarandi skrefum við stafrænt umsóknarferli:

1) Slá inn kennitölu

2) Skrá gilt netfang – umsóknarvefur INNU mun senda kóða til að staðfesta netfangið þitt (sendandinn er noreply@inna.is en gæta þarf þess að skilaboðin gætu endað í ruslpóstinum þínum). Sláðu inn kóðann á umsóknareyðublaðið til að halda áfram.

3) Fyrir utan grunnpersónuupplýsingar þarf að gefa upp menntun og/eða starfsreynslu.

4) Valfrjálst: Setja inn stafræna passamynd (ekki stærri en 500 kb að stærð og helst jpg eða jpeg).

5) Skrifa stutta greinargerð um áhugasvið og reynslu (50-100 orð).

6) Ef námsferill er ekki tiltækur á INNU – gæti þurft að senda stafræn afrit af skírteinum inn á þar til gerð svæði með tilheyrandi merkingum.

7) Hafa stafræn fylgiskjöl tiltæk: 1) stafræna möppu sem sýnir dæmi um eigin verk og 2) hugmyndavinnu, s.s. myndir úr skissubókum (að minnsta kosti 10 síður). Hámarksskráarstærð er 350 MB í jpg eða PDF.

8) Fylla út greiðslukortaupplýsingar til að greiða umsóknargjald.

HEFUR ÞÚ SPURNINGAR EÐA VANTAR ÞIG FREKARI UPPLÝSINGAR?

Hafa samband við yfirkennara teiknibrautar.