Samtök myndlistarkennara í Danmörku, Danmarks Billedkunstlærere hafa um árabil haldið upp á Dag myndlistar á miðvikudegi í 11. viku ársins. Haustið 2021 sendu samtökin áskorun á norræna kollega sína um að taka þátt í verkefninu. Markmiðið með deginum er að minna á mikilvægi myndlistarinnar sem sérstakrar kennslugreinar í skólastarfi með nemendum á öllum aldri og öllum skólastigum.
Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur einsett sér að vera í fararbroddi í myndlistarkennslu á grunn- og framhaldsskólastigi, ekki eingöngu með því að bjóða nemendum á þessum skólastigum upp á gott nám í myndlist og tengdum greinum heldur einnig með því að bjóða kennurum upp á endurmenntun og veita þeim aðgang að verkefnum og kennsluefni.
Barna- og unglingadeild Myndlistaskólans í Reykjavík ákvað því að taka þátt í Degi myndlistar sem að þessu sinni bar upp á miðvikudaginn 16. mars 2022.
Þátta skólans fólst í því að senda öllum leik- og grunnskólum á landinu þrjú myndlistarverkefni sem hægt er að vinna með nemendum á breiðum aldri. Skólinn naut liðsinnis Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands til þess að koma gjöfinni í hendur réttra viðtakenda. Það er von okkar að kennarar vítt og breitt um landið geti nýtt verkefnin í sínu starfi.