Heimakær er sería af heimilis-textíl. Í verkefninu dregur Thelma Kristín innblástur
sinn úr íslensku flórunni og túlkar íslenskar jurtir yfir í abstrakt vefnað. Markmið
verkefnisins er að hanna voðir úr náttúrulegum trefjum sem færa náttúruna inn fyrir
veggi heimilisins, lífga upp á rýmið og bæta líðan heimilisfólks.
Til sýnis eru fjórar voðir, hver fyrir sig hefur að geyma liti ákveðinnar plöntu úr
íslensku flórunni. Bandið er handlitað og eru 5-8 sérhannaðir litir í hverri voð.
Voðirnar eru allar ofnar í einskeftu úr mismunandi gerðum ullar eða silkis. Einskeftan
hefur þá sérstöðu að hún gefur gott jafnvægi í vefinn og blandar litunum jafnt svo úr
verður einstakt samspil tóna. Kaflamunstrin eru tvenns konar. Annars vegar er
hannað út frá útliti plöntunnar, uppröðun lita og hlutföllum. Hins vegar er hannað með
það í huga að allir litirnir fái að njóta sín hver til jafns við annan. Verkefnið er opið og
hefur mikla möguleika á áframhaldandi skoðun og sköpun.
Voðirnar eru hér settar í samhengi við heimilið með því að stefna þeim saman við
gömul húsgögn.