Endurnýjun lífdaga samanstendur af þremur verkum sem byggja á hefðbundnum
útsaumstextíl og glerperlum. Gömul útsaumsverk kvenna hafa að vissu leyti úrelst og
með tímanum orðið verðlaus þrátt fyrir sögulegt gildi þeirra og þá tímafreku vinnu sem
býr að baki handverkinu. Þessi útsaumur liggur í stöflum á nytjamörkuðum og er
efniviður verksins sóttur þangað.
Perlur eru eitt elsta form skrauts og hefur saga þeirra, áferð og fínleiki heillað Sólveigu. Í
verkinu lagði hún áherslu á að vinna með perlur í útsaum og vefnaði. Með þessum
fíngerða efnivið bætir Sólveig meiri sögu, enn tímafrekari vinnu við útsauminn og skapar
áhugavert samtal milli fortíðar og nútíðar. Perlurnar flæða frjálslega á milli þráðanna,
mýkja myndformin og textíllinn lifnar við. Með því að sundra eldri verkum leitast
höfundur eftir því að gefa þeim endurnýjun lífdaga.