Kjós, 26.Júní 2020
Í dag fékk ég svar frá skólanum, ég komst inn í textíldeildina!! Spennandi tímar framundan, mig
langar svo að geta komið hugmyndunum mínum á textíl. Ég fór í göngutúrinn minn áðan,
stoppaði og lagðist í mjúkan mosann og tók myndir af hreindýramosa, öll þessi munstur
náttúrunnar eru ótrúlegi. Síðan rölti ég niður í fjöru á Búðasandi. Það var að fjara, slóðinn af
þaranum lá eftir endilangri ströndinni með öllum sínum kuðungum, skeljum og ígulkerjum. Frá
Búðasandi lá leið mín yfir í Maríuhöfn og týndi ég krækling í kvöldmatinn, alltaf nóg af bláskel
þar. Á heimleið gekk ég í gegnum lúpínuhafið með alla sína litatóna og týndi fullan poka af
lúpínublómum, ég las að það væri áfangi í náttúrulitun og kannski get ég nýtt mér þau í haust.
Fjörðurinn enn spegilsléttur með sína fjölmörgu bláu tóna. Endalaus fegurð, endalaus
innblástur.
MAÍ 2022
Í útskriftarverki Soffíu lá beinast við að nota Kjós sem innblástur, en þar býr hún við sjávarsíðuna
með útsýni yfir Hvalfjörðinn. Verk hennar samanstendur af nokkrum sjálfstæðum efnum.
Mosinn er gerður með handlituðu viskósi, skreyttur munstri hreindýramosans. Með Indigo-litun
túlkar hún fjörðinn og hvernig hann ber við himinn. Bláskelin liggur í fjöruborðinu og er þrykkt í
símunstri (e. Repeat Pattern). Þaraslóði fjörunnar er silkilþrykk með staðbundnu munstri (e.
Placement Print) á bómull. Litatónar lúpínublóma eru silkiþrykk með reaktívum litum sem njóta
sín í silkinu. Öll þau munstur náttúrunnar sem finnast í Kjósinni og fegurðin sem býr í samspili
lita, áferða og forma munu veita Soffíu innblástur um ókomna tíð.