Ég hef áhuga á teikningu og hvernig hægt er að beita henni til að rannsaka heiminn og tilveruna og koma þannig skilningi og sköpun frá sér. Mér finnst gaman að vinna með áferðir og tóna og að byggja þannig upp myndir. Stórar ljósritunarvélar eru vinir mínir í listinni, mér finnst gaman að vinna með hvernig myndirnar verða grófari og tættari eftir nokkrar umferðir í gegnum vélina. Í teiknivinnu nýt ég þess einnig að nota blekpenna, tré- og vatnsliti. Þegar ég fæst við sögur finnst mér áhugavert að skoða hvernig umhverfið og persónur vinna saman við að skapa og móta þær.
Við gerð Kolrössu krókríðandi vildi ég fanga þjóðsagnarlegan anda sögunnar og halda í tímaleysi ævintýra. Tímaleysi er þó erfitt að fanga í myndmáli, það er alltaf eitthvað sjónrænt sem setur tímabilið hvort sem það eru föt, verkfæri eða teiknistíll. Til að ná fram þessu andrúmslofti notaði ég ljósritunarvél. Með henni er hægt að má út myndir og ná fram forneskju en á sama tíma er það augljóst að þetta var gert með vél sem tilheyrir nútímanum og því staðsetur hún okkur líka í samtímanum.