Milliverk er innsetning þar sem ull og girni eru í forgrunni.
Titillinn er sóttur í merkingarheim svefnherbergja og sængurfata og gefur í þeim skilningi til kynna nánd, ró, hvíld og kærleika. Orðið vekur jafnframt hugrenningatengsl við íhlaupavinnu, störf sem unnin eru á milli hefðbundinna skylduverka dagsins, og myndar þannig tengsl við þá stöðu sem handavinna kvenna hafði öldum saman og hefur kannski enn.
Þráðurinn er lykilform í verkinu og lagt er upp með að spinna nýjan þráð úr þeim tveimur ólíku hráefnum sem ullin og girnið eru.
Andstæðurnar í efnisvalinu speglast með tvennum hætti:
Annars vegar er það hin praktíska og alltumvefjandi ull sem hefur verið nýtt með öllum mögulegum leiðum í flíkur og nytjahluti, stóra sem smáa, sem kallast á við girnið sem gefur til kynna tómstundir og lúxus.
Hins vegar felast andstæður í því að ullin er sótt í íslenskt nærumhverfi en girnið er hannaður, framleiddur og innfluttur varningur.
Með því að nota þessi tvö hráefni í útfærslu og framsetningu er leitast við að skapa draumkenndan og hjúpandi heim sem áhorfandinn gengur inn í.
Merking verksins tekur breytingum eftir því náttúrulega ljósi sem umvefur þau hverju sinni.