Að hlusta á góða plötu í gegn er eins og að fara í tilfinningalegt ferðalag. Það eru áhrifin sem ég vil vekja með minni list. Ég byrjaði ung að mála og teikna, þá vaknaði áhugi minn á myndlist og ég fann fyrir ánægju og stolti yfir því sem ég skapaði. Það sem heillar mig mest við listina er frelsið til að tjá hvað sem er: tilfinningar, reynslu eða afstöðu, í því formi sem passar hverju sinni.
Í námi mínu við Myndlistarskólann hef ég fengið hvað mest út úr speglun minni við samnemendur mína. Það er ótrúlegt hvað ég hef lært mikið um mína eigin sköpun út frá þeirra túlkun á henni. Þau sjá oft eitthvað sem á við sem ég sé ekki sjálf.
Sá miðill sem ég tengi hvað sterkast við er tónlistin, sérstaklega þegar henni er skeytt saman við hið sjónræna. Vel unnið tónlistarmyndband eða verk blandað við tónlist gerir upplifunina svo miklu sterkari.
Ég ákvað að gera hljóð- og vídeóverk fyrir lokaverkefnið. Ég fann fyrir þörf til þess að miðla reynslu minni af tímabili í mínu lífi fyrir árum síðan; neysla sem hrinti af stað geðrofi og maníu.
Hljóðverkið byggir á texta sem ég skrifaði út frá þessari reynslu og einkennist af ranghugmyndum, einangrun, kvíða og depurð.
Efni: Hljóð/Video, lengd 03:17