Þessar þrjár myndir sem ég skila sem lokaverkefni eru málaðar upp úr kollinum á mér. Þær eru hugmyndir sem fæðast í samspili ímyndunarafls og löngunar til að stokka upp liti á viðfangsefnunum að hluta. Þetta eru einskonar ævintýri sem málast tiltölulega óáætluð í ferlinu. Engar skissur, enginn undirbúningur sem vert er að nefna. Það eina sem má kallast undirbúningur er að finna ljósmynd af dýrinu sem ég hef ákveðið að komi næst á strigann með bakgrunninum sem ég byrja á að mála ásamt uppsetningu og afstöðu dýranna óljóst mótaða í huganum, hugmyndirnar hafa breyst verulega frá því að bakgrunnurinn er kominn á strigann þangað til að myndin klárast.
Þannig er eiginlega best að lýsa þessu ferli sem fæðir af sér þessar myndir. Þetta eru fjarstæður, ævintýri hugarflugsins. Eiginlega er þetta mín leið til að hafa gaman af því að „sulla“ (ef nota má það orð) hugmyndum sem fæðast í kollinum á mér upp á strigann og hafa ánægju af því að mála það sem mig langar til. Þessa dagana hefur dýraríkið verið mér ákveðinn innblástur sökum nánast óendanlegs fjölbreytileika þess.