Ólöf Ágústína Stefánsdóttir
Úr viðjum

Ólöf Ágústína Stefánsdóttir

Úr viðjum

Verkið Úr viðjum fjallar um mikilvægi sérhverra eininga sem er snúið saman til að mynda sterka heild. Hér er rýnt í hefðir, þær endurskoðaðar, leystar upp og leitað nýrra leiða.

Kveikjan að verkinu er komin frá hönk af togvír. Út úr ryðhrúgunni glitti í kaðalinn; kjarna vírsins sem framkallaði hugrenningar um líkindi milli hefðbundins textíls sem venjan tengir við kvenlæga iðju og þessa öfluga togvírs sem flestir telja til hins karllæga veruleika.

Í grunninn er uppbygging togvírs og textílþráðar sá hinn sami. Ég ákvað að leita frekari fanga og valdi mér byggingarsvæði þar sem lágu spennandi úrköst og biðu þess að verða flutt í bræðslu, umbreytast eða eyðast. Nokkur þeirra fengu óvænt og algjörlega nýtt hlutverk sem opinberast hér í þremur verkum. Hvert þeirra sýnir snúning, vafning og hefur ryð í mismiklu magni.

Snúningurinn mótar verkin í skúlptúra og vafningurinn með sísalþráðum og grasstráum heldur þeim saman. Ryðið sýnir forgengileikann og hvernig tíminn vinnur á efninu. Á milli verkanna hlykkjast yfirsnúinn olíublautur kaðall. Hann er táknmynd kjarna togvírsins sem ver hann gegn álagi en gæti allt eins verið áminning til okkar um hvað þurfi til að næra kjarnann sem er sameiginlegur öllu lífi.

Ó Á S 1
Ó Á S 2
Ó Á S 3
Ó Á S 4
Ó Á S 5
Ó Á S 6