Þegar ég var krakki fannst mér ekkert skemmtilegra en að skrifa og myndskreyta mínar eigin
sögur. Á unglingsaldrinum missti ég svo áhugann en er núna loksins búin að finna aftur
þessa hlið á mér. Með því að fara í teiknideild Myndlistaskólans lét ég mjög gamla drauma
rætast. Ég fann aftur löngun til að skrifa sjálf og í lokaverkefninu mínu vildi ég sameina
áhuga minn á börnum og bókum, og gerði barnabók. Sagan hefur breyst mikið á þessum
átta vikum sem ég var að vinna verkefnið, en mér fannst mjög gaman að fara í gegnum allt
ferlið og sjá bókina vera til. Bókin mín heitir “Foreldraplánetan” og fjallar um barn sem getur
ekki sofnað. Ímyndunarafl barnsins fer á flug og í huga þess breytast foreldrarnir í geimverur.
Ég vann allar myndirnar í bókinni sem klippimyndir (collage), því að mér finnst þessi aðferð
svo skemmtileg og hún gefur mér mikið frelsi til þess að gera tilraunir.
í framtíðinni langar mig að vinna meira með mínar eigin sögur og barnabækur eða graphic
novels, en ég er líka mjög spennt fyrir allskonar öðrum verkefnum sem tengjast teikningu.