Ágúst Elí Ásgeirsson
Blíðfinnur

Ágúst Elí Ásgeirsson

Blíðfinnur

Síðan ég man eftir mér hef ég alltaf haft mikið dálæti á verkum Þorvalds Þorsteinssonar. Áhuginn kviknaði við mjög ungan aldur þegar foreldrar mínir lásu fyrst fyrir mig Skilaboðaskjóðuna. Fljótlega síðar eignaðist ég svo kassettu með lögum úr uppsetningu Þjóðleikhússins á verkinu þar sem Þorvaldur sjálfur las inn söguna á milli söngva. Það var svo árið 2001 á mínu fjórða aldursári að ég kynnist sögunum um Blíðfinn. Á þeim tíma voru aðeins tvær bækur af fjórum komnar út og æfingar hafnar í Borgarleikhúsinu á leiksýningu um vængveruna góðu. Þar sem ég var þriggja ára og kunni ekki að lesa sáu pabbi og mamma um lesturinn fyrir mig og þegar þau voru upptekin setti ég bara hljóðbókina í kasettutækið og hlustaði á höfundinn sjálfan lesa verkið sitt. Ég varð hugfanginn af þessari ótrúlegu sögu og þegar frumsýningin rann upp í Borgarleikhúsinu mætti ég fremstur í Blíðfinnsbúning og fékk meira að segja að hitta leikarana baksviðs eftir á. Á næstu árum komu svo út tvær Blíðfinnsbækur í viðbót og það má með sanni segja að þessi bókaflokkur hafi átt stóran þátt í að móta þann einstakling sem ég er í dag.

Fyrir ári síðan í íslenskuáfanga í Myndlistaskólanum voru barnabækur aðal viðfangsefnið og allir í bekknum sendu inn nafnlausa tillögu að barnabók sem við myndum lesa saman. Ég stakk upp á Blíðfinnsbókunum sem urðu svo fyrir valinu og okkur var sett fyrir að lesa allar fjórar bækurnar sem telja samtals hátt í 500 blaðsíður og eru því alls ekkert léttmeti fyrir snjallsímakynslóðina. Þá voru liðin þó nokkur ár síðan ég hafði lesið seríuna í heild sinni. Við lesturinn rann upp fyrir mér að ég hafði í raun aldrei skilið boðskap bókanna til fulls áður. Bækurnar eru hreinlega of heimspekilegar fyrir lítið barn til að skilja. Ég sá Blíðfinn í glænýju ljósi og varð ástfanginn í annað sinn, nema í þetta skiptið undir allt öðrum forsendum.

Síðustu sjö mánuði hef ég notað Blíðfinnspersónuna sem viðfangsefni til að hjálpa mér að skilja betur hina margslungnu þætti teiknimyndagerðar og útkoman er þessi stutta kvikunarprufa sem hér gefur að líta. Störf innan teiknimyndageirans eru ótal mörg og í raun er ég að vinna vinnu sem margir mismunandi einstaklingar með ólíka starfsreynslu og einstaka kunnátta ynnu að í hefðbundinni teikinimyndaframleiðslu. Þess vegna hefur þetta stutta skot tekið mig svona langan tíma en ég er ákaflega sáttur með útkomuna og spenntur að taka þetta verkefni enn þá lengra á næstu mánuðum.