10.06.21
Fyrrum nemendur af teiknibraut hlutu gullverðlaun á FÍT verðlaununum

Tveir fyrrum nemendur af teiknibraut skólans hlutu gullverðlaun á FÍT verðlaununum sem sýnd var í beinu streymi á Vísi í lok maí. Verðlaunin eru á vegum Félags Íslenskra teiknara og er þetta í tuttugasta skipti sem þau eru afhent. Hlutverk þeirra er að finna það sem skarar fram úr í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi ár hvert.

Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson hlaut gullverðlaun í flokknum Myndlýsingarröð fyrir myndlýsingar barnabókarinnar Nærbuxnavélmennið eftir Arndísi Þórarinsdóttur rithöfund.

Umsögn dómnefndar:

„Hér er sko líf og fjör. Allt stútfullt af stórskemmtilegum teikningum þar sem smáatriðin fá að njóta sín. Kaotísk en á sama tíma fókuseruð myndbygging sem nær ótrú­lega góðu jafnvægi. Öryggi teiknarans skín í gegn og augljóst að hér er mikil ástríða og fagmennska á ferðinni.“

Sigmundur var í fyrsta árgangi nemenda sem luku námi við teiknibraut skólans árið 2012. Hann hefur starfað við teikningu síðan í fjölbreyttum miðlum bæði erlendis og á Íslandi, til að mynda við myndlýsingar, kápugerð og tölvuleikjateikningu.

Þá hlaut Elísabet Rún Þorsteinsdóttir gullverðlaun í nemendaflokki fyrir nemendaverkið Ég þarf að segja þér svolítið.

Umsögn dómnefndar:

„Heildstætt og áhugavert verk sem vekur athygli á þarfri umræðu í samfélaginu. Sterk heildarmynd með vel unnum blæbrigðum og heldur athygli lesandans.“

Elísabet lauk námi við teiknibraut skólans vorið 2018 og fór í framhaldi af því í diplómanám í myndasöguteikningu við ÉESI í Frakklandi. Eftir það hóf hún B.A. nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands sem hún lauk nú í vor.

Myndlistaskólinn í Reykjavík óskar þeim Sigmundi og Elísabetu innilega til hamingju með verðlaunin.