Hugmyndin byrjaði á því að hugsa um þau skilaboð sem að ég og aðrar konur í kringum mig fáum frá ókunnugum karlmönnum sem að bjóða manni heiminn allt út frá myndum sem maður setur af sér á netið. Stundum geta þau skilaboð verið ágeng og einfaldlega verið áreiti.
Út frá því byrjaði ég að taka viðtöl við konur í kringum mig, konur á mínum aldri, spurði þær nokkurra spurninga um það hversdagslega áreiti sem þær verða fyrir. Sögurnar fóru úr flauti úti á götu yfir í upplifanir sem þær eru enn þá að vinna úr. Tók ég viðtal við 7 konur og frá þeim viðtölum tók ég 7 setningar sem mér þótti standa hvað mest upp úr og höfðu hvað mest áhrif á mig. Bjó ég til innsetningu í sundlaug, sundlaug sem hafði verið tæmd af vatni en fyllti ég hana með sögum af áreiti. Með þessar 49 setningar og upptöku af öllum viðtölunum sett yfir hvort annað mátti ganga um og skoða og heyra erfiðar sögur kvenna. Var því upplifunin sjálf ákveðið áreiti, hljóðáreiti frá þessu ærandi hljóði og sjónáreiti þar sem allar þessar sögur skildu áhorfandann eftir leiðan og reiðan um þann veruleika sem er því miður enn til staðar.
Við fyrstu sýn er verkið saklaust, litirnir eru huggandi og kunnulegir, hvítur og blár sem maður tengir við sundlaugar og góðar upplifanir. Hinsvegar, þegar farið er ofan í laugina taka á móti manni erfiðar aðstæður, er hægt að setja sig í spor þeirra kvenna er hafa deilt með mér þessum sögum og tengja þær við þínar eigin upplifanir sem og annarra kvenna og karlmanna í kringum þig. Tók ég viðtölin við konur á mínum aldri því er það minn veruleiki sem að ég vildi sýna.
Hægt er að skoða vefsíðuna sem ég bjó til um verkið.
Efni: Laug: 1,5 m. dýpt - 3 m. breidd - 10 m. lengd. Setningar: 49 A2 blöð.