17.04.24
Keramikbraut tekur þátt í Hönnunarmars

Nemendur Keramikbrautar Myndlistaskólans í Reykjavík taka þátt í Hönnunarmars með sýningunni Nýting og nægjusemi.

Þessi hugtök verða okkur æ mikilvægari í daglegu lífi, en tilgangur sýningarinnar er að vekja athygli á því hversu mikilvægt er að hægja á neysluhyggju og þeim hraða sem við lifum við í samtímanum. Áherslur verkanna endurspegla meðal annars hugtök á borð við margnýtanleika, fjölnota, hugarró, einfaldleika, hversdagleika, neytendamiðað, sjálfbærni og notendavæna hönnun.

Sýningin Nýting og nægjusemi er unnin undir handleiðslu gipsmeistarans og hönnuðarins Jens Pfotenhauer. Í þriggja vikna áfanga hjá Jens lærðu nemendur ýmsar aðferðir í gipsmótagerð. Þeir gerðu vinnuteikningu, mastermót, afsteypumót, steyptu í þau með postulíni, glerjuðu og brenndu verkin. Á meðan á sýningu stendur verða uppákomur þar sem nemendur hella postulínsmassa í mótin sín (sjá dagskrá).

Sýningin verður sett upp í Porti Hafnarhússins í Tryggvagötu og opnunarhátíð er miðvikudaginn 24. apríl kl. 18:00.

KERA Honnunarmars2024