17.03.22
Gjöf í tilefni af Degi myndlistar

Myndlistaskólinn í Reykjavík er 75 ára á þessu ári en grunnur að stofnun skólans var lagður vorið 1946 þegar Félag íslenskra frístundamálara var stofnað. Tilgangurinn var að félagsmenn gætu sótt sér tilsögn í myndlist. Kennsla hófst síðla árs 1947 og strax árið 1948 voru barnanámskeið skólans orðin eftirsótt, auk þess sem boðið var upp á kennslu í teikningu, litameðferð, skúlptúr og keramiki fyrir fullorðna.

Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur einsett sér að vera í fararbroddi í myndlistarkennslu á grunn- og framhaldsskólastigi, ekki eingöngu með því að bjóða nemendum á þessum skólastigum upp á gott nám í myndlist og tengdum greinum heldur einnig með því að bjóða kennurum upp á endurmenntun veita þeim aðgang að verkefnum og kennsluefni.

Samtök myndlistarkennara í Danmörku, Danmarks Billedkunstlærere hafa um árabil haldið upp á Dag myndlistar á miðvikudegi í 11. viku ársins. Síðastliðið haust sendu samtökin áskorun á norræna kollega sína um að taka þátt í verkefninu. Markmiðið með deginum er að minna á mikilvægi myndlistarinnar sem sérstakrar kennslugreinar í skólastarfi með nemendum á öllum aldri og öllum skólastigum. Að þessu sinni bar daginn upp á miðvikudaginn 16. mars. Barna- og unglingadeild Myndlistaskólans í Reykjavík ákvað að taka þátt að þessu sinni.

Í ljósi ofangreindra markmiða Myndlistaskólans varð úr að þátttaka skólans fælist í því að senda öllum leik- og grunnskólum á landinu þrjú myndlistarverkefni sem hægt er að vinna með nemendum á breiðum aldri. Skólinn naut liðsinnis Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands til þess að koma gjöfinni í hendur réttra viðtakenda. Það er von okkar að kennarar vítt og breitt um landið geti nýtt verkefnin í sínu starfi.