Á vordögum gekk Kristín Ómarsdóttir rithöfundur til liðs við Myndlistaskólann í Reykjavík með það verkefni að skapa vettvang fyrir nýjar tengingar milli nemenda eftir samskiptaskerðingar undangenginna mánaða. Kristín bjó til námskeið sem hún nefndi Samskiptasköpun og var öllum nemendum dagskólans boðið að taka þátt. Þrátt fyrir að samskiptasköpunin hafi farið fram í gegnum nútíma fjarfundabúnað voru viðfangsefni þátttakenda bréfasamskipti pennavina, dagbókarskrif og önnur analógísk, gamaldags hegðun. Hver nemandi fékk úthlutað pennavini úr hópi sem hann hafði ekki átt í samskiptum við og undir styrktri stjórn Kristínar hófu nemendur að skrifast á, njósna hverjir um aðra, teikna myndir af vinum sínum og trúa þeim fyrir framtíðarsýn sinni og draumum.
Hér má sjá dæmi um vinnu nemenda og sömuleiðis birtum við nokkur brot úr fyrirlestrum Kristínar með góðfúslegu leyfi hennar.
Verkefni nemenda voru eftirfarandi:
- Bréf til pennavinar
- Pennavinir hittist á netinu – og teikna hvorn annan
- Dagbók pennavinar þíns sem þú heldur fyrir hann
- Að teikna draumahúsið
- Að teikna draumaelliheimilið
- Að teikna draumasundlaug eða draumaalmenningsgarðinn
Nokkur brot úr inngangsfyrirlestri Kristínar Ómarsdóttur:
Hugurinn er ekki úr stáli, hann er hjálmlaus, hann ber að verja og passa og hendurnar geta brotnað. Kynfærin þola ekki hörku betur en aðrir líkamshlutar, ekkert í líkamanum eða andanum eða sálinni eða huganum eða hjartanu eða öllum líffærunum þolir hörku.
Ég er ekki komin langt útfyrir meginmálið. Þetta er líka kynning. Í kynningum má allt. Í meginmálinu má líka allt og í lokaorðum, þó málsgreinarnar líti út fyrir að vera útúrdúrar eru þær allar útpældar, hér starfa saman hugur og hönd.
(...)
Hendur eru ótrúlegt tæki. Bara þegar maður teygir sig einsog hífukrani í bollann og hellir uppí sig. Og þegar maður teiknar eða skrifar – í höndunum – spyr ég mig oft: hver stjórnar hér ferð? Ég? Hugurinn? Höndin? - Horfir hugurinn á höndina? - Því stundum virðist hún ráða? Þarna á milli er algjörlega mjög dularfullt yndislegt samband. En hér ekki talað um það þegar höndin hjálpar til við að gera öðrum og sjálfum sér miska. Ætli megi segja um huga og hönd að þau líti til með hvort öðru.
(...)
Hvernig sýnir maður sig í bréfi? (...) Maður heldur ákveðnu jafnvægi á milli þess sem maður felur og þess sem maður sýnir – á meðan maður sýnir eitthvað felur maður annað og maður sýnir aldrei allt þó maður sýni allt þá sýnir maður aldrei allt því allt er endalaust – inní okkur býr dularfull eilífð eitthvað sem aldrei klárast. Svo sýnir maður einum eitt og öðrum annað (...) Ég gef ekki uppskrift af bréfunum. Nema þessa: viðhafið kurteisi og virðingu, bréfin sem þið skrifið eru gjöf ykkar til pennavinar ykkar – allt sem þú vilt að aðrir gjöri yður skalt þú og þeim gjöra, sagði Jesús.
(...)
Þessi spurning er enn óleyst: fyrir hvern skrifar fólk dagbók? Fyrir sjálfan sig líklegast, til að gera skil á dögunum, til að tala um lífið og dagana og daglátin við sjálfan sig. Um leið og höndin ritar niður hugsanir opnast þriðja augað – inní sálardjúpin hvers öldur gárast – bara örlítið – enginn ofsalegur öldugangur sem ritun dagbókar veldur - nema lifi maður ofsalega – og - lifi maður ofsalega getur maður náð pínulítilli stjórn, t.d. á skapsmununum, með því að skrá daga sína.
Og líka skrifar maður dagbók til að geta e.t.v. greint mynstur lífsins síns -
Og líka til að þykjast ná og e.t.v. ná örlitlum – jafnvel meira en litlum á tímabilum - tökum á tímanum [og lífi sínu].