Vinnustofan er fyrir alla þá sem vilja þjálfast í aðferðarfræði skapandi ferlis, bæði í samstarfi og sjálfstæðum verkefnum, frá kveikju til úrvinnslu með áherslu á ferlið og tilraunir frekar en útkomu.
Vinnustofan byggir á bókinni „Skapandi ferli leiðarvísir“. Fluttir verða stuttir fyrirlestrar og lögð fyrir verkefni sem markmiðið er að þróist á tímabilinu. Þátttakendur þjálfast í að sýna og ræða eigin tilraunir og annarra auk þess að efla sig í sjálfstæðum vinnubrögðum.
Öll efni og aðferðir eru velkomin (svo lengi sem þau skaði ekki aðra). Boðið er uppá grunnverkfæri, pappír og liti. Hægt verður að geyma minni verkefni í skólanum á tímabilinu. Lagt er upp með að mæta hverjum nemanda á þeim stað sem hann er og mun vinnustofan aðlaga sig að nemendahópnum hverju sinni.
Leiðbeinandi vinnustofunnar er Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona sem á sér tvo samhliða myndlistarferla. Annars vegar er hún starfandi í The Icelandic Love Corporation / Gjörningaklúbbnum og hins vegar vinnur hún verk undir eigin nafni.
Vinnustofan er 6 vikur.