Námskeiðið skiptist í tvo hluta. Umsækjendur geta valið um annars vegar að skrá sig á sex vikna námskeið með einni einingu og hins vegar að sækja annan hvorn hlutann án námseininga. Það er hlutfallslega ódýrara að sitja námskeiðið í heild heldur en að sækja aðeins annan hvorn hlutann.
Í fyrri hluta, sem eru fjögur skipti, er farið yfir helstu strauma og stefnur í alþjóðlegri listasögu frá endurreisn til nútímalistar. Fyrirlesari tekur fyrir breyttar fagurfræðilegar áherslur, breytingar í efnistökum og inntaki listamanna og ólíkar leiðir út frá trúarlegum gildum.
Í síðari hluta, sem eru tvö skipti, er farið yfir íslenska listasögu frá frumherjum 20. aldar til hugmyndalistar, eða fæðingar samtímalistar. Auk þess fer fyrirlesari sérstaklega yfir list í almenningsrými og rýnir í útilistaverk á Íslandi.
Námslok miðast við 80% mætingu.
Jón B. K. Ransu er myndlistarmaður og fræðibókahöfundur, en hann hefur skrifað þrjár bækur í ritröð sem fjallar um myndlist. Bækurnar heita Listgildi samtímans: Handbók um samtímalsit á Íslandi (2012), Málverkið sem slapp út úr rammanum (2014) og Hreinn hryllingur: Form og Formleysur í samtímalist (2019). Jafnframt var einn af höfundum bókanna Gerður: Meistari málms og glers (2010) og Valtýr Pétursson (2016).
Ransu er yfirkennari við listmálarabraut Myndlistaskólans í Reykjavík.