Námskeiðið er hugsað sem skapandi smiðja þar sem nemendum eru kynntar ýmsar aðferðir til að efla eigin hugmyndir og sjálfstætt vinnuferli. Tilvalið námskeið fyrir þá sem hyggjast sækja um listnám á háskólastigi. Nemendur halda utan um öll verkefni námskeiðsins sem geta nýst í ferilmöppu.
Unnið verður með skissur og skrásetningu í ýmsa miðla svo sem teikningu, ljósmyndun, líkanagerð og texta. Kynntar verða fjölbreyttar æfingar til að örva hugmyndaflæði og kynnast nýjum vinnuaðferðum, allt frá því að hugmynd kviknar og að lokaútfærslu hlutar/verks. Farið verður í gegnum aðferðir við rannsóknarvinnu, hugmyndavinnu og skissugerð.
Yfirskrift námskeiðsins er Útópía, en unnið verður með undirþemun; landslag, menning, áferð og litapalletta. Nemendur tengja sig við listasöguna með ýmsum æfingum, upplifa / rannsaka verk úr nánasta umhverfi sínu. Einnig verður unnið með hugtök eins og samhengi, staðhætti, virkni, minni, hreyfingu, hegðun, tjáningu, hlutverk og innblástur. Nemendur halda utan um öll verkefni námskeiðsins sem geta nýst í ferilmöppu.
Nemendur eru beðnir um að koma með eigin stafrænar ljósmyndavélar eða myndavélar í farsímum.
Námslok miðast við 80% mætingu.