Grunnnámskeið í vefnaði er verklegt námskeið þar sem nemendur fá tækifæri til þess að kynnast möguleikum vefnaðar. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þá þekkingu og færni sem þarf til þess að setja upp í vefstól og vefa voð að eigin vali. Hver nemandi fær úthlutaðan vefstól og vinnur að einstaklingsmiðuðu verkefni sem skipulagt er í samráði við kennara, með áherslu á að framkvæmd verkefnisins sé raunhæf innan tímaramma námskeiðisins. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að nemendur vinni frjálst út frá eigin áhugasviði. Prufugerð og tilraunastarfsemi verða metin til jafns við afmörkuð verkefni.
Í upphafi fá nemendur stutta kynningu á bindifræði, hvernig lesa eigi uppskriftir, fylgja leiðbeiningum og áætla garnmagn fyrir uppistöðu í vefnað. Nemendur fá stutta kynningu á helstu vefnaðaraðferðum og velja sér aðferð og bindimunstur til þess að nýta í verkefnin framundan.
Nemendur setja sjálfir upp í vefstól undir handleiðslu kennara og vefa voð í kjölfarið. Á meðan vefnaður stendur yfir fá nemendur leiðsögn við tæknileg atriði og útfærslur frágangs.
Nemendum er gert að útvega sér efni sjálfir en munu hafa aðgang að vefstólnum á skrifstofutíma skólans á tímabili námskeiðsins.
Námskeiðið verður á mánudags- og miðvikudagskvöldið á tímabilinu 16. júní til 20. ágúst, í alls tíu skipti. Fimm skipti fara fram í júnímánuði og fimm skipti í ágústmánuði.
Námslok miðast við 80% mætingu. Kennslan fer fram á íslensku.