Námskeiðið Örnámskeið í leirmótun: Pulsuaðferð er það fyrsta í röð inngangsnámskeiða í leirmótun, þar sem tiltekin aðferð við mótun og hleðslu leirs er tekin fyrir. Nemendur munu móta hlut með svokallaðri pulsuaðferð undir handleiðslu kennara. Þeim gefst líka færi á því að lita hlutinn með leirlit en kennari mun glerja alla hlutina með glærum glerungi eftir að námskeiði lýkur. Eftir námskeiðið eiga þátttakendur að hafa fengið tilfinningu fyrir möguleikum og takmörkunum aðferðarinnar og geta nýtt sér hana í sjálfstæðri vinnu.
Þar sem um inngangsnámskeið er að ræða, er námskeiðið sérstaklega sniðið að þörfum byrjenda. Lengra komnum er þrátt fyrir það velkomið að sækja námskeiðið enda kjörið tækifæri til að leira í félagsskap annarra.
Boðið er upp á 2 námskeið. Bæði námskeiðin verða haldin síðdegis á föstudag, laugardag og sunnudag. Fyrra námskeiðið er frá 13.-15. júní og það síðara 15.-17. ágúst.
Námslok miðast við 80% mætingu. Kennt verður á íslensku.