Áætlun gegn einelti og kynferðislegri áreitni

Samkvæmt reglugerð er einelti skilgreint sem endurtekin ámælisverð háttsemi af hálfu eins eða fleiri saman, þ.e. hegðun, athöfn eða athafnaleysi, sem er til þess fallin að meiða, niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna, ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Þetta á einnig við um skilaboð eða aðrar upplýsingar sem miðlað er í síma eða með rafrænum hætti. Hér er þó almennt ekki átt við samskipti eða skoðanaskipti milli jafningja. Kynferðisleg áreitni er ein tegund eineltis en allt einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi sem og ofbeldi er óheimil í skólanum.

Ef nemandi eða starfsmaður verður fyrir eða fær vitneskju um einelti eða kynferðislega áreitni innan skólans skal viðkomandi tafarlaust upplýsa skólastjóra, deildarstjóra eða námsráðgjafa skólans um það. Viðkomandi þarf vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til.

Skólastjóri, deildarstjóri eða námsráðgjafi bregst við eins fljótt og kostur er komi fram ábending eða kvörtun um einelti eða aðra áreitni innan skólans. Einu gildir hvort um ræðir einelti eða áreitni í garð nemanda, starfsmanns eða stjórnanda. Ásakanir um einelti eða kynferðislega áreitni eru ávallt teknar alvarlega og frekari upplýsinga um hvort þær eigi við rök að styðjast leitað hjá nemendum, kennurum og öðru starfsfólki eftir því sem við á. Ef þörf krefur er leitað til utanaðkomandi ráðgjafa. Ávallt er leitast við að hafa sanngirni og óhlutdrægni að leiðarljósi.

Gripið er til viðeigandi ráðstafana til að stöðva einelti. Rætt er við málsaðila hvora í sínu lagi. Ef nemandi yngri en 18 ára á hlut að máli er einnig rætt við forráðamenn. Báðir aðilar máls eiga kost á að ræða við námsráðgjafa. Farsæl lausn málsins byggir á rannsóknarferlinu sjálfu. Þar sem einelti snýst um samskipti er mikilvægt að aðilar málsins komi sjálfir með hugmyndir að lausn vandans.