Starfsnám

Starfsnám nemenda:

Nemendum í áfanganámi á BA stigi við Myndlistaskólann gefst kostur á að sækja um Erasmus+ styrk til að fara í starfsnám til Evrópu í tengslum við námið. Dvalartími er frá tveimur vikum til tólf mánaða. Markmiðið er að auka hæfni og þekkingu nemenda á sínu fagsviði og að efla sjálfstraust þeirra, tungumálakunnáttu og þekkingu á menningu og venjum annarra landa. Starfsnámið reiknast ekki til eininga en nemendur fá vottorð um námið að því loknu.

Ekki er æskilegt að nemendur sæki starfsnám erlendis á námstíma en hægt er að sækja um styrk til starfsnáms að sumarlagi. Nemendur geta sótt um ERASMUS+ styrk til starfsnáms sem fram fer að lokinni útskrift en sækja þarf um styrkinn fyrir útskrift og nýta hann innan tólf mánaða frá útskriftardegi. Sömu reglur gilda um þessa styrki hvað varðar lágmarksdvalartíma og faglega tengingu við námið. 

Starfsnám starfsfólks:

Starfsfólki gefst kostur á að sækja um Erasmus+ styrk vegna tímabundinnar kennslu við erlenda samstarfsskóla, til að sækja fagtengd námskeið eða vinnustofur, fara í starfskynningar (job shadowing) eða skipulagðar heimsóknir til starfsmenntastofnana. Ferðirnar geta staðið frá tveimur til sextíu daga. Markmið starfsþjálfunarferðanna er að efla færni og þekkingu starfsfólks sem nýtist innan skólans og skal dvölin með beinum hætti tengjast stefnu skólans og markmiðum hans með þátttöku í Evrópusamstarfi. 

Náms- og þjálfunarverkefni fyrir starfsfólk skólans eru liður í þátttöku íslenskra skóla í alþjóðlegu samstarfi en meðal markmiða Evrópusambandsins með samstarfi í skólastarfi er að stuðla að útbreiðslu þekkingar og auka færni og hæfni innan menntakerfisins, að auka gæði í kennslu og vinna gegn brotthvarfi.

Nemendur og starfsmenn finna móttökuaðila í samstarfi við deildarstjóra. 

Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri alþjóðamála.