Erasmus+

Myndlistaskólinn í Reykjavík er aðili að Erasmus+, menntaáætlun Evrópusambandsins. Áætlunin gerir skólanum kleift að sækja um náms- og þjálfunarstyrki fyrir nemendur sína, nýútskrifaða nemendur og starfsfólk. 

Myndlistaskólinn er með vottun á náms- og þjálfunarverkefnum í starfsmenntun (VET Mobility Charter) sem veitir skólanum aðgang að einföldu umsóknarkerfi og vilyrði fyrir styrkveitingum fram til ársins 2020. Vottunin auðveldar skólanum að gera áætlanir um umfang alþjóðlegs samstarfs til lengri tíma og að kynna tækifæri í námi og þjálfun fyrir nemendum og kennurum. Vottunin bætir verkferla og eykur gæði verkefna og auðveldar skólanum að byggja upp samstarf og mynda traust í öðrum Evrópulöndum. 

Kynningarfundir eru haldnir fyrir nemendur og starfsfólk skólans um tækifæri til starfsnáms og möguleika á styrkjum.

Verkefnastjóri alþjóðamála við skólann annast samskipti við Erasmus+ á Íslandi og aðstoðar nemendur við að sækja um styrk til starfsnáms erlendis. Skólinn hvetur jafnframt kennara og annað starfsfólk til að sækja sér endurmenntun til Evrópu í gegnum Erasmus+.

Skólinn átti frumkvæði að og stýrði verkefninu Knowhow, samstarfsverkefni sex listaskóla í Evrópu á árunum 2004-2007. Verkefnið hlaut gæðaviðurkenningu fyrir tilraunaverkefni en það þótti vel útfært og féll vel að markmiðum Evrópusambandsins um bætta verk- og starfskunnáttu og nýjungar á sviði náms og kennslu í grunnþáttum verknáms og í kennslufræðum. Verkefnið leiddi til stofnunar námsbrautar í keramiki og lagði grunninn að samstarfi skólans við ýmsar evrópskar menntastofnanir sem nemendur hafa getað sótt frekara nám til á grundvelli mats á námi við Myndlistaskólann sem nám á háskólastigi. Skólinn fékk annan styrk fyrir verkefnið KnowHow 2 árin 2009-2011 sem leiddi til stofnunar námsbrauta í teikningu og textíl.