Nám við barna- og unglingadeild fer fram á námskeiðum og er skipulagt með hliðsjón af markmiðum aðalnámskrár grunnskólans. Allt annað nám sem fram fer við Myndlistaskólann í Reykjavík er skilgreint á framhaldsskólastigi.
Nám í dagskóla fer fram á myndlistarbraut fyrir nemendur með þroskahömlun, listnámsbraut, keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut.
Nám fyrir nemendur með þroskahömlun er skilgreint á 1. hæfniþrepi.
Námslok á listnámsbraut eru á 3. hæfniþrepi.
Nám á keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut er skilgreint sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi með námslok á 4. hæfniþrepi samkvæmt íslenska viðmiðarammanum. Þetta nám var skipulagt í víðtæku samstarfi, m.a. við erlenda listaháskóla. Það er metið til 120 alþjóðlegra ECTS eininga af samstarfsháskólum í Evrópu og samsvarar tveggja ára námi á háskólastigi.
Áfangar námskeiðaskóla fyrir fullorðið fólk eru sömuleiðis á framhaldsskólastigi en almenningur hefur kost á að sækja mörg þeirra námskeiða sem kennd eru í dagskóla á námskeiðum sem ýmist fara fram á daginn eða kvöldin. Ennfremur er í námskeiðaskóla boðið upp á áfanga sem ekki eru kenndir í dagskóla.