Skólastig/námslok/skipulag náms

Nám við barna- og unglingadeild fer fram á námskeiðum og er skipulagt með hliðsjón af markmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Allt annað nám sem fram fer við Myndlistaskólann í Reykjavík er skilgreint á framhaldsskólastigi og er metið til framhaldsskólaeininga. Á bakvið hverja einingu er 18-24 klst. vinnuframlag nemandans.

Nám í námskeiðaskóla fer að mestu fram á skólatíma en hluti af námsvinnu nemenda dagskóla fer fram utan formlegs kennslutíma, ýmist sem sjálfstæð vinna nemandans í kennslustofum og á verkstæðum skólans eða sem heimavinna. Heimavinna getur verið bókleg jafnt sem verkleg.

Nám í dagskóla fer fram á listnámsbraut, keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut, auk myndlistarnáms fyrir nemendur með þroskahömlun sem skilgreint er á 1. hæfniþrepi en fer ekki fram skv. skilgreindri braut.

Námslok á listnámsbraut eru á 3. hæfniþrepi. Samsetning námsins er í samræmi við kröfur aðalnámskrár framhaldsskóla um nám til stúdentsprófs. Brautin er tveggja ára nám en við skólann eru teknar 140 einingar eða 35 á hverri önn. Áður þurfa nemendur að hafa lokið að lágmarki 60 einingum við annan framhaldsskóla, í kjarnagreinum og valgreinum, öðrum en þeim sem kenndar eru við skólann. Gert er ráð fyrir að stór hluti þess náms sé á 1. og 2. þrepi. Af þeim 140 einingum sem kenndar eru í skólanum eru 25 á 1. þrepi, 52 á 2. þrepi, 57 á 3. þrepi og 6 á 4. þrepi, lokaverkefni nemenda. Eins árs fornám er ætlað nemendum sem lokið hafa stúdentsprófi af annarri braut en það samanstendur af völdum verklegum áföngum af listnámsbrautinni, auk listasögu, alls 64 einingum.

Nám á keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut er skilgreint sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi með námslok á 4. hæfniþrepi. Þetta nám var skipulagt í víðtæku samstarfi, m.a. við erlenda listaháskóla. Það er metið til 120 alþjóðlegra ECTS eininga af fjölmörgum háskólum í Evrópu og samsvarar tveggja ára námi á háskólastigi.

Áfangar námskeiðaskóla fyrir fullorðið fólk eru sömuleiðis á framhaldsskólastigi en almenningur hefur kost á að sækja fjölda námskeiða sem samsvara áföngum sem kenndir eru í dagskóla. Ennfremur er í námskeiðaskóla boðið upp á áfanga sem ekki eru kenndir í dagskóla. Námskeið fyrir almenning eru flest á 1. og 2. þrepi.