Nám

Myndlistaskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1947 og hefur starfað óslitið síðan. Tilgangur með stofnun skólans var að búa til vettvang þar sem almenningur ætti kost á kennslu í myndlist. Auk þess hefur starfsemi skólans gefið starfandi listamönnum kost á launaðri vinnu á sínu sérsviði. Lengst af var eingöngu hægt að sækja stök námskeið við skólann og voru þau í boði bæði fyrir börn og fullorðna nemendur. Nemendafjöldi tók gjarnan mið af því rými sem skólinn hafði til afnota og t.d. varð gríðarleg fjölgun þegar flutt var úr Ásmundarsal upp á Hlemm.

Með upptöku áfangakerfis innan framhaldsskólans opnaðist möguleiki fyrir nemendur annarra skóla að fá nám við Myndlistaskólann metið inn í annað nám. Þegar Myndlista- og handíðaskóli Íslands var lagður niður og Listaháskóli Íslands stofnaður skapaðist þörf fyrir markvisst undirbúningsnám fyrir háskólanám í myndlist og hönnun. Myndlistaskólinn stofnaði þá fornámsdeild og í fyrsta sinn árið 2001 var boðið upp á samfellt nám við skólann.

Í dag eru alls sjö námsleiðir í boði í dagskóla en jafnframt er boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn, unglinga og fullorðna nemendur.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarbækling skólans.