Við tökum nú við umsóknum um árs nám í myndlist fyrir nemendur sem lokið hafa starfsbraut framhaldsskóla eða sambærilegu námi.
Í náminu er lögð áhersla á að nemandinn kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum, tækni og hugtökum sem notuð eru um myndlist og hönnun og öðlist innsýn í listasögu og samtímalist. Námið veitir engin formleg réttindi en það gefur nemendum möguleika á að skapa sér starfsvettvang á sviði listsköpunar, á eigin spýtur eða með stuðningi. Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að:
- nota margskonar aðferðir og miðla myndlistarinnar
- umgangast helstu verkfæri og tæki sem notuð eru í myndlist
- vinna að eigin listsköpun, sjálfstætt eða með stuðningi
- tjá sig um eigin verk og annarra á skilmerkilegan hátt, miðað við færni og tjáningarmáta
- tjá sig um áhugamál sín á skilmerkilegan hátt, miðað við færni og tjáningarmáta
- vera skapandi þátttakandi í samfélaginu
Sótt er um á vef skólans. Umsóknarfrestur rennur út að kvöldi sunnudags 29. maí.