04.10.22
Ný námskeið hefjast í október

Í október hefjast nokkur sex vikna námskeið af fjölbreyttum toga. Viðfangsefnin eru ólík og misjafnt er hvort þau séu ætluð fyrir byrjendur eða lengra komna. Tilvalinn kostur fyrir þá sem vilja gera sér dagamun og læra eitthvað nýtt. Áhugasömum er bent á að skrá sig tímanlega þar sem námskeiðin geta verið fljót að fyllast.

Litaskynjun: Eiginleikar og virkni

Umfjöllunarefni námskeiðsins er skynjun okkar á litum, áhrif þeirra, vægi og merkingu í umhverfi og listum. Skoðaðar eru mismunandi litasamsetningar, litir bornir saman og tilraunir gerðar með tón, blæ og ljósmagn í lit. Sagt er frá helstu kenningum og hugmyndum um lit. Úr frumlitunum mála nemendur litahring og kanna á annan kerfisbundinn hátt áhrifamátt lita í tengslum við andstæðuliti og heita/ kalda liti. Einnig eru verkefni unnin með fleiri miðlum og gerðum litarefna, þar sem áhersla er á persónulega túlkun nemenda í litanotkun og litasamspili.

Námskeiðið er góð undirstaða fyrir nemendur sem hafa hug á áföngum í málun og einnig mikilvægur þáttur í almennum undirbúningi fyrir frekara nám á sviði hönnunar eða myndlistar.

Kennari er Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Námskeiðið hefst 17. október. Kennt er á mánudögum kl. 17.45-21.00 í sex vikur.

Nánari upplýsingar og skráning hér.

Módelteikning

Á þessu námskeiði verður lögð áhersla á grunnþætti módelteikningarinnar, hlutföll, línu og form og tengingu þessara grunnþátta við efni og tækni. Módeli verður stillt upp í mislangan tíma sem ræðst aðallega af efnisnotkuninni hverju sinni en nemendur fá þjálfun í notkun á blýanti, kolum, bleki og fleiru. Bæði verða teiknaðar langar stöður og hraðskissur. Einnig fá nemendur að glíma við hreyfingu og stundum verður skuggi og birta viðfangsefni í teikningunni.

Kennslan er persónubundin og miðar út frá hæfni og þörfum hvers nemenda.

Kennari er Halldór Baldursson

Námskeiðið hefst 20 október. Kennt er á fimmtudögum kl. 17.45-21.00 í sex vikur.

Nánari upplýsingar og skráning hér.

Vatnslitun: Tilraunir (síðdegistímar)

Á námskeiðinu verða gerðar fjölbreyttar tilraunir í samvinnu við kennara. Farið verður í undirstöðuatriði vatnslitunar og athöfnin að mála með vatnslit verðuð skoðuð úr sem flestum áttum og áhersla lögð á tilraunagleði. Unnar verða einfaldar tækniæfingar, gerðar tilraunir með áferðir, gagnsæi og litablöndur, unnið eftir ljósmyndum og málað eftir fyrirmyndum. Námskeiðið hentar vel byrjendum og reynt að koma til móts við hæfni hvers og eins nemenda.

Kennari er Aðalheiður Valgeirsdóttir

Námskeiðið hefst 21. október. Kennt er á föstudögum kl. 12.30-15.30 í sex vikur.

Nánari upplýsingar og skráning hér

Procreate

Námskeið fyrir þá sem vilja læra tölvuteikningu eða dýptka þekkingu sína í Procreate.

Farið verður yfir grunnatriði Procreate, verkfæri og viðmót forritsins. Komið verður inná grunnhugtök litafræðinnar, notkun laga og hvernig þau spila saman og hvernig maður lætur teikningarnar hreyfast.

Markmiðið er að eftir námskeiðið hafi nemendur fengið nægilega undirstöðuþekkingu til að takast á við eigin verkefni með notkun Procreate. Mikilvægt að nemendur séu með grunnþekkingu í teikningu.

Námskeiðið hefst 27. október. Kennt er á fimmtudögum kl. 17.45-21.00 í sex vikur.

Kennari er: Dagur Pétursson Pinos

Nánari upplýsingar og skráning hér.

InDesign og Photoshop

Spennandi möguleiki fyrir alla þá sem vilja kynna sér möguleika hönnunar- og myndvinnsluforritanna InDesign og Photoshop.

Farið verður yfir helstu möguleika forritanna jafnframt því sem nemendur leysa verkefni upp á eigin spýtur með aðstoð kennara. Markmiðið er að eftir námskeiðið hafi nemendur fengið nægilega undirstöðuþekkingu til að takast á við tvívíð grafísk hönnunarverkefni s.s. bæklinga, plaköt, bækur ofl. ásamt því að hafa náð tökum á undirstöðuatriðum í myndvinnslu.

Kennari er Magnús Valur Pálsson.

Námskeiðið hefst 27. október. Kennt er á fimmtudögum kl. 17.45-21.00 í sex vikur.

Nánari upplýsingar og skráning hér.

Námskeið skólans eru styrkhæf hjá flestum fræðslusjóðum stéttarfélaga en nánari upplýsingar um slík réttindi fást hjá viðkomandi stéttarfélagi.

Sjonlist Mir 18