04.05.21
Stutt og spennandi námskeið fyrir fullorðna í maí

Í maí býður Myndlistaskólinn í Reykjavík upp á nokkur stutt námskeið af fjölbreyttum toga. Viðfangsefnin eru ólík og misjafnt er hvort þau séu ætluð fyrir byrjendur eða lengra komna. Tilvalinn kostur fyrir þá sem vilja gera sér dagamun og læra eitthvað nýtt. Áhugasömum er bent á að skrá sig tímanlega þar sem námskeiðin geta verið fljót að fyllast.

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona mun leiða fjögurra daga námskeið í frjálsri módelteikningu frá mánudeginum 17. maí til fimmtudagsins 20. maí. Markmiðið er að þáttakendur nái að losa um ótta við að teikna módel á „réttan“ hátt og finni heldur frelsi í því að teikna eftir lifandi fyrirmynd með tilraunakenndum aðferðum. Æskilegt er að þáttakendur hafi einhverja reynslu af módelteikningu. Námskeiðið hentar einnig vel reyndari aðilum sem vilja fá tækifæri til að hressa uppá módelteikningarminnið.

Þann 17. maí hefst námskeið í þrívíddarprentun í leir. Á námskeiðinu, sem stendur yfir í sjö kennsludaga til 27. maí, munu þáttakendur tileinka sér undirstöðuþekkingu við notkun leirþrívíddarprentara. Kynntur verður ýmis hugbúnaður til tölvuteikningar ásamt þjálfun í notkun þeirra til að vinna áfram eigin hugmyndir. Námskeiðið er ætlað fólki sem er þegar með undirstöðu í tölvuteikningu og hentar því vel starfandi hönnuðum og listamönnum sem vilja prufa nýjan miðil. Kennari er myndlistarkonan María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir.

Einnig verður boðið upp á námskeið í leirrennslu fyrir byrjendur frá 17. maí með leirlistakonunni Steinunni Bjarnadóttur. Námskeiðið, sem stendur yfir í sex kennsludaga, verður stutt en hnitmiðað svo þátttakendur nái sem bestu tökum á rennslunni. Þátttakandinn fær að kynnist heildstæðu ferli frá forvinnu allt að lokafrágangi og glerjun. Að námskeiðinu loknu taka þáttakendur fullbúna leirmuni með sér heim.

Nánari upplýsingar um námskeiðin og skráningu má finna hér.

Þrívíddarprentun