06.02.20
Nemendur sýna á Vetrarhátíð

Vetrarhátíð fer af stað í dag með ýmsum uppákomum og viðburðum á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur Myndlistaskólans í Reykjavík leggja sitt af mörkum við að lýsa upp skammdegið en í kvöld opna tvær nemendasýningar á vegum skólans.

Nemendur í fornámi hreiðra um sig á gatnamótum Austurstrætis og Pósthússtrætis og varpa hugleiðingum um framtíð og fortíð á krossgötum ljóss og myrkurs. Verk þeirra, sem ber nafnið VÁ, tekur mið af umhverfinu þar sem flettast inn brot úr sögu staðarins á sama tíma og tekist er á við ljós sem efnivið til að skapa myndlist í almannarými. Leiðbeinandi er Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.

Þá mun hópur nemenda úr barna-og unglingadeild sýna hreyfimyndir á vegg Ráðhúss Reykjavíkur, Vonarstrætis megin. Verkin eru unnin í klippiforriti og teiknuð í tölvu á námskeiðinu Tölvuteikning og rafræn list, undir leiðsögn Ninnu Þórarinsdóttur og Bjarkar Viggósdóttur.

Sýningarnar hefjast báðar þegar rökkva tekur, öll kvöld 6.-9. febrúar kl 19.00-23.00.

Nánari upplýsingar um dagskrá Vetrarhátíðar má finna hér.


Vá