25.11.19
Verk eftir Inga Hrafn sýnd í Brussel og Helsinki á vegum The Other Travel Agency

Myndlistaskólinn í Reykjavík er einn af samstarfsaðilum The Other Travel Agency, samnorræns verkefnis sem fjallar um stöðu jaðarhópa innan listsamfélagsins á Norðurlöndum.

Meginmarkmið The Other Travel Agency er að skapa vettvang fyrir fólk sem almennt hefur ekki gott aðgengi að listsamfélaginu, og vekja athygli á fjölbreyttri listsköpun hans.

Verkefnið hefur á þessu ári staðið fyrir fjölda viðburða þar á meðal samsýninga á Íslandi, Brussel og nú síðast í Helsinki.

Samsýningin Hostel Takeover, var hluti af þessari dagskrá og var haldin á vegum Vinnustofu Myndlistaskólans í lok mars síðastliðinn.

Listafólk í Vinnustofunni tók yfir fjórðu hæðina í JL-húsinu – í yfirgefnu hosteli sem eitt sinn bar nafnið Oddson. Eða eins og sagði í sýningartextanum: ,,Einu sinni hostel fullt af ferðafólki - Núna yfirgefið autt rými - Á sunnudaginn kraumandi listrými''.Listafólkið sýndi verk í fjölda rýma; málverk, teikningar, skúlptúra, vídjóverk og frömdu gjörninga á opnun.

Sýnendur á Hostel Takeover voru: Arna Ýr Jónsdóttir, Atli Már Indriðason, Ásdís Henný Pálsdóttir, Ásgeir Ísak Kristjánsson, Gígja Garðarsdóttir, Glódís Erla Ólafsdóttir, Guðmundur Stefán Guðmundsson, Ingi Hrafn Stefánsson, Kolbeinn Jón Magnússon, Lára Lilja Gunnarsdóttir, Sigurður Reynir Ármannsson, Sindri Ploder, Valdimar Leó Vesterdal og Vilmundur Örn Gunnarsson.

Verk eins listamanns, Inga Hrafns Stefánssonar, voru valin til að vera send út á sýningarröðina í Brussel og Helsinki.

Ingi Hrafn sýndi 5 málverk af borgarlandslagi Reykjavíkur með Hallgrímskirkju í aðalhlutverki ásamt hljóðupptöku af kirkjuklukkum Hallgrímskirkju.

Einnig voru portrett ljósmyndir af öllu listafólki Hostel Takeover sýndar í Brussel og Helsinki sem og heimildamynd um sýninguna sem gerð var af þeim Lee Lynch og Margréti M. Norðdahl.

Heimildarmyndin er nú komin á netið. smellið hér til að horfa.

Ingi