07.05.19
Starf laust til umsóknar: Deildarstjóri textíldeildar

Myndlistaskólinn í Reykjavík auglýsir 50% starf deildarstjóra textíldeildar laust til umsóknar.

Skólinn er sjálfseignarstofnun, rekinn af félagi starfandi myndlistarmanna og hönnuða. Markmið skólans er að efla grunnmenntun og miðla sem best þekkingu í verklegum og fræðilegum þáttum sjónlista.

Deildarstjóri textíldeildar stjórnar öllu faglegu starfi innan deildarinnar; skipuleggur skólaárið, ræður kennara og hefur umsjón með nemendahópnum. Stærsta verkefnið er að annast tveggja ára námsbraut á 4. þrepi í textíl (áfanganám á BA stigi) sem byggir jöfnum höndum á hugmynda- og hönnunarvinnu og þjálfar nemendur í verktækni á öllum helstu sviðum textílvinnu. Auk þess skipuleggur deildarstjóri stök námskeið í textíl fyrir almenning í samráði við deildarstjóra námskeiða.

Við leitum að metnaðarfullum myndlistarmanni eða hönnuði með háskólamenntun í textíl, öflugt tengslanet, víðtæka þekkingu á nýjustu framleiðslutækni í textíl, góða skipulagsgáfu og brennandi áhuga á skólastarfi. Ennfremur er æskilegt að viðkomandi hafi kennsluréttindi á framhaldsskólastigi.

Umsóknum skal skila á netfangið umsoknir@mir.is eða á skrifstofu skólans fyrir kl. 17:00 miðvikudaginn 22. maí 2019. Nýr deildarstjóri tekur formlega við deildinni í byrjun ágúst en æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Skólinn áskilur sér rétt til að hafna öllum umsækjendum.

Upplýsingar veitir Áslaug Thorlacius, skolastjori@mir.is.

Mir Logo Is En