21.11.18
Starfsnám í Helsinki

Una Kristín Jónsdóttir útskriftarnemi (2018) af textílbraut fór að lokinni útskrift í fjögurra mánaðar starfsnám til Helsinki í Finnlandi. Starfsnámið var styrkt af Erasmus+ og fór fram hjá textíllistakonunum Outi Martikainen og Ulla-Maija Vikman. Báðar eru þær einyrkjar og er vinnuferlið hjá þeim mjög ólíkt og fjölbreytt. Una Kristín fékk að fylgjast með þeim og taka þátt í öllu vinnuferlinu, frá upphafi til enda. Starfsnámið var mjög lærdómsríkt og segir Una Kristín að hún hafi dýpkað þekkingu sína á þessum fjórum mánuðum og bætt við það sem hún hafði þegar lært í námi sínu við MÍR. Una Kristín talar einnig um að það hafi verið stórkostlegt tækifæri að fá að búa í Helsinki, sem er nú orðin hennar uppáhalds borg. Starfsnámið var frábær endir á náminu og mælir hún bæði með starfsnámi og Helsinki fyrir alla.

Í ár var í fyrsta skipti hægt að sækja um sérstakan Erasmus+ styrk fyrir starfsmann til þess að fara til leiðbeinanda og undirbúa starfsnámið. Deildarstjóri textílbrautar fór því og heimsótti bæði Outi Martikainen og Ulla-Maija Vikman og kynnti sér aðstæður og umhverfi sem starfsneminn myndi dvelja í og verkefni sem hann myndi takast á við. Einnig áttu deildarstjórinn og textíllistakonurnar samtal um hvaða væntingar og markmið allir aðilar hefðu til starfsnámsins og höfðu tækifæri á að kynnast.

Helsinki Starfsnám