21.11.18
Póstkort samstarfsverkefni keramikbrautar

Nemendur á keramikbraut taka þátt í samstarfsverkefni milli fjögurra keramikdeilda í Evrópskum háskólum. Markmið verkefnisins er að deila á milli þátttökuskólanna hæfni, menningu og kennslu í keramik. Nemendur gerðu póstkort úr leir í raunstærð og útfærðu á ýmsan hátt. Verkin ferðast síðan á milli landa á sýningu í hverju landi. Fyrsta sýningin var opnuð í galleríinu Sintra í Gautaborg nú í nóvember. Á sýningunni voru til sýnis póstkort nemenda Myndlistaskólans í Reykjavík og nemenda í HDK í Svíþjóð.

Nemendurnir í HDK í Svíþjóð byrjuðu verkefnið á vinnustofu. Þar áttu þeir samtal um Svíþjóð sem stað. Hvaða áhrif þjóðerni, umhverfi og uppruni hefur á tilfinningu og skynjun okkar á þeim stað sem við búum á og hvernig við miðlum því til þeirra sem hafa ekki verið þar?

Nemendur Myndlistaskólans unnu póstkortin út frá  tilraunum um íslensk jarðefni og notuð leir víðsvegar af landinu og blönduðu út í hann m.a. vikri, sandi og ösku. Viðfangsefnin voru fjölbreytt m.a. landslag, berg, útsaumur og íslenska kindin.

Frá Svíþjóð heldur sýningin áfram til Írlands og Wales og endar á Íslandi í september 2019.

Þátttökuskólarnir eru:

  • Myndlistaskólinn í Reykjavík, Ísland
  • HDK Svíþjóð
  • Cardiff School of Art and Design, Wales
  • Limerick School of Art and Design, Írland
Póstkort Keramikbraut